144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

aldurstakmarkanir í framhaldsskólanám.

[11:26]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að sett var reglugerð um þá röð sem skyldi gilda um hvernig nemendur væru teknir inn er ekki til komin vegna þess að það ætti að taka þá inn alla. Þá þyrfti enga slíka röðun. Augljóslega er slík reglugerð sett vegna þess að það er ákveðið forgangskerfi. Og ég hvet hv. þingmann til þess að kynna sér líka lög um framhaldsskóla, hvað kemur þar fram varðandi þetta mál.

Það sem ég er að reyna að benda hv. þingmanni á er þetta: Það er að gerast núna að nemendum er að fækka í framhaldsskólunum, m.a. vegna þess að árgangar eru að minnka og vegna þess að atvinnuástand er að breytast. Það eru stærri breytingar sem verða vegna þess og urðu á síðasta ári en vegna afleiðinga þess sem hér um ræðir, þ.e. 25 ára reglunnar svokölluðu. En þá vil ég líka benda hv. þingmanni á að sannarlega eru ýmis úrræði til staðar fyrir þá sem eru 25 ára og eldri og ætla sér í bóknám. Þau eru mörg og margbreytileg (Gripið fram í: Hvað kosta þau?) og þeim hefur fjölgað. (Gripið fram í: …kosta.) Ég vil benda á þá yfrirlýsingu sem rektor Menntaskólans í Hamrahlíð gaf. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Ástæðan fyrir því að öldungadeildinni var lokað þar [Frammíköll í þingsal.] var m.a. vegna þess (Forseti hringir.) að þau úrræði (Forseti hringir.) sem eru í boði fyrir nemendur sem eru eldri eru orðin miklu fjölbreyttari og betri en hefur verið í boði (Forseti hringir.) og þess vegna fækkaði í þeirri deild. Og þar fækkaði um fleiri hundruð nemendur, virðulegi forseti, á nokkrum árum.(Gripið fram í.)

(Forseti (EKG): Forseti biður um hljóð í þingsalnum þegar hv. þingmenn halda ræður sínar.)