144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

samgöngumál.

[11:54]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör og vilja hennar til þess að reyna að afla meira fjár til samgöngumála, ekki veitir af. Ég mun styðja hana til þess og við hér á þingi.

Við vitum varðandi atvinnumál og annað að það skiptir sköpum hvernig samgöngurnar eru. Ég nefni veikar byggðir á Vestfjörðum sem hafa verið í umræðunni undanfarið og það skiptir sköpum hvernig hringtenging innan Vestfjarða verður. Það er uppbygging í eldismálum á sunnanverðum Vestfjörðum og einnig er verið að vinna að þeim málum á norðanverðum Vestfjörðum. Síðasta sumar var flæði þar á milli, sem skiptir miklu að geti verið allt árið.

Mér finnst að skýr skilaboð þurfi að koma frá innanríkisráðherra um þá staði sem sitja eftir, hvar sem þeir eru á landinu. Það eru ákveðin svæði á Ströndum, á norðanverðu landinu, á Vestfjörðum, sem eru mörgum áratugum á eftir í samgöngubótum. (Forseti hringir.) Þá skiptir máli hvernig forgangsröðun er í framkvæmdum.