144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

ummæli þingmanna í fundarstjórnarumræðu.

[12:19]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég er áheyrnarfulltrúi í atvinnuveganefnd. Á kvöldin athuga ég iðulega hvað sé á dagskrá nefndafunda daginn eftir. Ég sá ekkert um þetta, það voru raflínur og slíkt, en ég hefði mætt á fundinn ef átt hefði að tala um rammaáætlun. Við þurfum að forgangsraða okkar tíma vel.

Þetta eru ekki fagleg vinnubrögð, ekki nema formaður nefndarinnar sé að reyna að skapa óróa í þinginu og trekkja þingmenn hér inn og tefja störfin o.s.frv., ekki nema það sé tilgangurinn. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið þekktur fyrir að vinna faglega hér á þinginu, alla vega eftir hinu þekkta ferli, vegna þess að það er líklegra til að hreyfa málum áfram.

Nú kostar þetta þingið, meðal annars stjórnarflokkana, tíma sem annars væri hægt að nýta í að ná fram öðrum stefnumálum flokksins. Kannski ættum við að kalla eftir því að forseti (Forseti hringir.) biðji hv. formann atvinnuveganefndar um að setja svona stór mál á dagskrá. Það á ekki heima undir liðnum Önnur mál þegar verið er að ræða um mál sem varðar meiri hluta landsmanna miklu.