144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

úrskurður forseta.

[14:27]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Úr því að málið er svona vaxið væri ágætt að fá á hreint hvort það sé skoðun meiri hluta þings og stjórnarflokkanna og forustumanna ríkisstjórnarinnar að það sé í lagi að afgreiða út úr nefnd fjóra virkjunarkosti undir liðnum Önnur mál, hvort það sé í lagi að ráðast í slíka framkvæmd og setja í nýtingarflokk fjóra virkjunarkosti, þar af einn sem ekki hefur hlotið umfjöllun faghópa og verkefnisstjórnar um rammaáætlun í síðari umr. um þingsályktunartillögu þar sem hver þingmaður hefur fimm mínútna ræðutíma. Það á eftir að svara þeirri spurningu hvort stjórnvöldum í landinu þyki þetta eðlilegur málsferill og hvort hæstv. umhverfisráðherra sem stödd er hér í salnum sé samþykk þessari túlkun laganna. Það væri mjög forvitnilegt fyrir umræðuna og fyrir starfsandann í þinginu að fá úr þessu (Forseti hringir.) skorið hér í dag.