144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

úrskurður forseta.

[15:18]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að vitna í 1. mgr. 8. gr. þingskapalaga, þar sem segir, með leyfi forseta:

„Forseti stjórnar umræðum og sér um að allt fari fram með góðri reglu. Hann skal sjá til þess að störf þingsins séu í samræmi við ákvæði stjórnarskrár, þingskapa og annarra laga, sbr. og 81. gr.“

Hér snýst þetta meðal annars um það hvort farið hafi verið að öðrum lögum.

Síðan verð ég að segja, virðulegi forseti, að það er undarlegt að koma hér inn eftir nokkurt hlé sem varaþingmaður og verða vitni að því reginhneyksli sem er að eiga sér stað, að forseti skuli leggja blessun sína yfir að mál sé afgreitt úr þingnefnd án þess að hafa verið þar á dagskrá. Það storkar svo allri almennri skynsemi og bara því sem hver meðaljón þykist kunna í almennum félagalögum að sætir furðu. Og að forseti skuli leggjast svo lágt að leggja þetta á sig og gefa þetta fordæmi til að hysja upp um þingmanninn Jón Gunnarsson, formann atvinnuveganefndar, það er reginhneyksli.