144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, til eins árs, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 9. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

[16:10]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við um kjör í stjórn RÚV. Þegar þeim lögum var breytt sem við erum að fara að kjósa eftir núna var ég framsögumaður málsins í allsherjar- og menntamálanefnd. Þá var mesta umræðan um málið sú að við værum að breyta þessu af því að það mundi ekki vera tryggður nógu breiður grunnur í stjórn RÚV, fulltrúar kæmu ekki frá nógu mörgum sviðum og annað slíkt. Þá sagði ég í ræðustól að ég væri tilbúinn að skoða það að fjölga í stjórninni, m.a. til þess að koma fulltrúa starfsmanna að og fleira. Þetta var aðalumræðuefnið. Í framhaldi lagði ég sjálfur fram þá breytingartillögu sem við erum að greiða atkvæði um að fjölga um tvo. Það var aldrei talað um eitthvert samkomulag eða hvernig ætti að skipta milli flokka, heldur var þetta gert til að breikka hæfi í stjórninni. (Gripið fram í.)