144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:43]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar til að tæpa á nokkrum atriðum í máli sem lagt var fram af hálfu hæstv. forsætisráðherra áður en þingið fór í jólafrí, frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands. Áður en ég hef efnislega umfjöllun mína um þetta mál langar mig til að vekja sérstaklega athygli á því að það eru aðeins um það bil þrjú ár frá því að þingið afgreiddi ný lög um Stjórnarráð Íslands. Ég var sjálfur þátttakandi í þeirri afgreiðslu, sem formaður allsherjarnefndar, þetta var árið 2011, næstum því komin fjögur ár síðan. Þá voru gerðar margvíslegar breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands, þar á meðal með fjölgun aðstoðarmanna sem var nokkuð umdeilt ákvæði og gagnrýnt af þáverandi stjórnarandstöðu. Það var álit okkar sem þá skipuðum allsherjarnefnd að það væri æskilegt og í rauninni nauðsynlegt að styrkja hið pólitíska vald innan stjórnsýslunnar, innan Stjórnarráðsins, gagnvart hinu svokallaða embættismannavaldkerfi, stjórnsýslunni sjálfri.

Umræðu um þetta mál var frestað, virðulegur forseti, strax eftir að hæstv. forsætisráðherra hafði flutt það hér í aðdraganda jóla og ég man ekki betur en að það hafi einmitt fylgt sögunni og verið gert samkomulag um það að hæstv. forsætisráðherra yrði viðstaddur umræðuna. Ég sá að hæstv. ráðherra var í húsinu og hér í salnum rétt áðan, hefur kannski þurft að bregða sér aðeins frá eftir erfiða og spennandi atkvæðagreiðslu um stjórn Ríkisútvarpsins, en ég mundi vilja gera það að ósk minni við hæstv. forseta að hann hlutaðist til um það að hæstv. forsætisráðherra yrði viðstaddur ræðu mína hér.

(Forseti (SJS): Forseti hyggur sig geta staðfest að samkomulag hafi verið um þessa tilhögun umræðunnar, að hæstv. forsætisráðherra mælti fyrir málinu fyrir jólahlé og tæki andsvör ef því væri að skipta en síðan yrði umræðunni fram haldið að bak jólum og að hæstv. forsætisráðherra yrði þá viðstaddur. Forseti mun því gera gangskör að því að hæstv. forsætisráðherra sé gert viðvart um að nærveru hans sé óskað í þingsalnum.)

Ég þakka virðulegum forseta fyrir það. Það skiptir mig máli að hæstv. ráðherra sé viðstaddur, mig langar til að gera eitt sérstaklega að umtalsefni hérna og verð bara að fá að koma aftur í ræðu um þetta mál ef ekki vill betur til þannig að ég geti átt orðastað við hann um það. Það var mjög harðlega gagnrýnt árið 2011 að verið væri að fjölga aðstoðarmönnum, en núna þegar hæstv. ríkisstjórn kemur fram með þetta mál og segir það vera á grundvelli reynslunnar sem hlotist hafi af breytingunum — hér sé ég að hæstv. forsætisráðherra kemur í salinn — er athyglisvert að það skuli ekkert vera um fjölda aðstoðarmanna í því frumvarpi sem hæstv. forsætisráðherra kemur fram með nú. Sett var í lög um Stjórnarráð Íslands í september 2011 heimild til að fjölga aðstoðarmönnum og það var mat þáverandi stjórnarmeirihluta og þeirra sem sátu í allsherjarnefnd á þeim tíma að þetta væri mjög æskilegt til að styrkja hið pólitíska vald innan ráðuneytanna, en nú kemur í ljós að þrátt fyrir hina miklu gagnrýni sem meðal annars hæstv. forsætisráðherra, þá stjórnarandstöðuleiðtogi hér, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, bar fram í þessum orðum:

„Er þá eðlilegt að setja 120 milljónir í að fjölga pólitískum aðstoðarmönnum ráðherranna á sama tíma og þingmenn stjórnarandstöðu hafa enn enga aðstoð nema formenn flokka?“ er ekki stafur um málið í frumvarpinu.

Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir sem er nú formaður fjárlaganefndar hafði líka efasemdir:

„Er ekki fullmikið í lagt að bæta við 130 millj. kr. útgjaldaauka úr ríkissjóði fyrir aðstoðarmenn ráðherra þegar alls staðar ríkir niðurskurðarkrafa?“

Þá sagði hæstv. núverandi menntamálaráðherra Illugi Gunnarsson, með leyfi forseta:

„Ég geld varhuga við því, herra forseti, að það sé verið að færa enn og aftur völd frá þingi með þessum hætti og á sama tíma styrkja framkvæmdarvaldið pólitískt með því að fjölga aðstoðarmönnunum, en gera ekkert til að tryggja að staða minni hlutans á þinginu styrkist.“

Þá sagði hæstv. utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson að menn ættu frekar að nota þá fjármuni sem ætlaðir væru í aðstoðarmenn til að setja í sjúkrahúsin og það sem meira skiptir, Alþingi þess vegna, og greiddi þess vegna atkvæði á móti þessu.

Sjálfsagt hefur aldrei í sögu lýðveldisins verið ríkisstjórn með jafn marga aðstoðarmenn og núna. Sjálfsagt hefur aldrei verið forsætisráðherra í landinu sem hefur haft jafn marga aðstoðarmenn og núverandi hæstv. forsætisráðherra. Þess vegna kemur sérstaklega á óvart að ekki skuli vera minnst neitt á það í þessu frumvarpi.

Mig langar líka til að gera að umtalsefni nokkur efnisatriði í þessu máli. Án þess að fara beinlínis ofan í mál sem hefur verið töluvert í umræðunni varðandi flutning Fiskistofu, sem ég kem að síðar í ræðu minni, langar mig fyrst að nefna að það er sem sagt verið að bæta hér við 2. gr. laganna nýrri málsgrein sem orðast svo:

„Ráðherra kveður á um aðsetur stofnunar sem undir hann heyrir, nema á annan veg sé mælt í lögum.“

Verði þetta ákvæði að lögum getur ráðherra sem sagt ákveðið hvar stofnanir sem heyra undir ráðuneyti hans hafi aðsetur og flutt þær ef hann vill án þess að þurfa að leggja málið og rök fyrir slíkri ákvörðun fyrir löggjafann til umræðu og samþykktar.

Í frumvarpinu er meðal annars vísað til þess að þannig hafi það verið í fyrri lögum um Stjórnarráðið, þ.e. eftir að þeim var breytt árið 1999 eftir að Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að ákvörðun ráðherra um að flytja Landmælingar upp á Akranes hefði ekki haft stoð í lögum. Heimild til slíkra ákvarðana fyrir ráðherra hafi hins vegar fallið út núna þegar núgildandi lög voru sett árið 2011 án þess að séð verði að það hafi verið ásetningur löggjafans.

Hér hlýtur spurningin að vera hvort eðlilegt sé og æskilegt með tilliti til almannahagsmuna, gagnsærrar umræðu og lýðræðislegs aðhalds löggjafarvalds gagnvart framkvæmdarvaldinu, þ.e. ráðherra, að ráðherra hafi heimild til slíkra ákvarðana án þess að þurfa að bera þær undir löggjafann. Í því sambandi skiptir litlu hvort slík heimild hafi verið áður tímabundið í lögum. Eru ekki slíkar ákvarðanir þess eðlis og hafa þær ekki oft svo miklar afleiðingar fyrir almannahagsmuni, fjárhagslega og með tilliti til árangurs af starfi stofnana, að mjög æskilegt og eiginlega nauðsynlegt sé að tryggt verði að ráðherra þurfi að skýra þær fyrir Alþingi og rök fyrir þeim og að um þær fari fram ítarleg umræða, um kosti og galla þar sem þingmönnum, þ.e. þeim sem hafa umboð almennings, gefst kostur á að skýra sjónarmið sín og afstöðu og almenningur geti fylgst með því? Er ekki eðlilegt að svona mál fái umfjöllun samkvæmt þeim aðferðum sem þingið hefur, með umræðum, skoðun í þingnefnd, aðkomu og umsögnum sérstakra hagsmunaaðila? Er ekki líka nauðsynlegt að hafa aðhald með því að stofnunum sem eiga að sinna ákveðnum verkefnum með almannahagsmuni að leiðarljósi verði ekki skákað til af ráðherrum með þeim afleiðingum sem það getur haft fyrir starfsemi þeirra og árangur af þeim til lengri eða skemmri tíma nema ráðherra hafi gert þingmönnum grein fyrir rökum fyrir því og hvernig ákvörðunin hefur verið undirbúin með faglegu mati á því hvaða áhrif ætla má að flutningur hafi á starfsemi stofnunarinnar, árangur af henni og fjárhagsleg áhrif hans til skemmri og lengri tíma?

Verða menn ekki að horfast í augu við það að pólitískir hagsmunir ráðherra eða flokksins sem hann situr á þingi fyrir geta auðveldlega haft áhrif á slíka ákvörðun, framkvæmdina og ferilinn allan? Er ekki eðlilegt að menn spyrji og setji þennan feril upp þannig að það sé haft aðhald með því af hálfu allra þeirra sem gæta almannahagsmuna samkvæmt umboði frá almenningi?

Í þessu sambandi þarf að hafa í huga að ákvörðun um staðsetningu og flutning stofnana er ekki mál sem kemur oft upp og þannig að því sé stjórnsýslulega þörf á því að ráðherra geti ákveðið þetta hratt og án þeirra tafa sem leiða af þinglegri meðferð slíkra mála. Slíkar ákvarðanir eru og eiga að vera fágætar vegna þess mikla rasks sem því fylgir fyrir starfsemi stofnananna og því er nauðsynlegt að tryggja að þær séu mjög vel ígrundaðar og rökstuddar með tilliti til hagsmuna alls almennings í landinu til skemmri og lengri tíma. Þá þarf að vera tryggt að framkvæmd slíkra ákvarðana sé mjög vel undirbúin og að framkvæmdin taki þann tíma sem nauðsynlegur er með tilliti til þess að lágmarka skaðleg áhrif á starfsemina til lengri og skemmri tíma. Þar skiptir máli að líta til þekkingar og reynslu starfsfólks og hvernig henni verður best haldið innan stofnunar. Stofnun er ekki stólar, borð, tölvur og hús, heldur þekking starfsfólksins. Ef sú þekking glatast er því ekki um flutning stofnunar að ræða, heldur er verið að setja nýja stofnun á laggirnar sem þarf að byggja upp frá grunni, þar með talið hvað varðar þá nauðsynlegu þekkingu sem þarf til að sinna verkefninu vel. Það er hægt á löngum tíma, en mjög mikil hætta er á að mikilsverð reynsla glatist alveg ef farið of óðslega í verkið.

Ákvörðun um flutning stofnunar sem er illa undirbúin og tekur ekkert tillit til þess að svona framkvæmd þarf góðan tíma, m.a. til að hámarka líkur á að þekking starfsfólksins glatist ekki, er vond og fer í bága við almannahagsmuni. Löggjafinn þarf að veita framkvæmdarvaldinu aðhald um það líka því að ráðherra getur freistast til þess að keyra slíka ákvörðun hratt í gegn í von um að slá með því pólitískar keilur á svæðum þar sem hann eða flokkur hans vill sækja stuðning í næstu kosningum.

Hvernig á að verja hagsmuni starfsfólks ríkisstofnana og það fyrir því að fótum verði kippt undan tilveru þess og það svipt atvinnu sinni og framfærslu með litlum fyrirvara ef það vill ekki flytja heimili sitt og fjölskyldu þangað sem ráðherra vill ákveða? Hér eru afar mikilvægir hagsmunir í húfi fyrir starfsfólk sem hefur jafnvel starfað lengi hjá stofnun og sérhæft sig til að geta sinnt starfi sínu vel en á ekki kost á öðrum störfum. Þetta hefur líka sitt að segja um áhrif á samkeppnisstöðu ríkisins hvað varðar hæft og vel menntað starfsfólk. Það mun síður sækjast eftir störfum ef mikið óöryggi er um þessi atriði og sá sem er ráðherra hverju sinni hefur mismunandi áherslur og getur á tiltölulega skömmum tíma og með einföldum hætti skipt um staðsetningu ríkisstofnunar.

Það er mjög athyglisvert líka að í þessu sama frumvarpi virðist vera gert ráð fyrir að starfsmenn ráðuneyta verði ekki fluttir milli þeirra nema samþykki þeirra liggi fyrir. Langar mig til að eiga nokkur orð hérna af því að tími minn hefur flogið frá mér án þess að ég hafi náð að ljúka efnislegri umfjöllun minni um málið. Ég geri ráð fyrir að fara í aðra ræðu um það en núna langar mig til að segja sérstaklega hvað varðar flutninginn á Fiskistofu að það hlýtur að vera mikið áhyggjuefni fyrir hæstv. ríkisstjórn að í því róti sem myndast hefur um þá stofnun hefur í raun og veru bara einn starfsmaður, fiskistofustjóri, lýst því yfir að hann ætli að flytjast með stofnuninni norður til Akureyrar. Það hlýtur að vera einhvers konar vitnisburður um það að þarna hafi mönnum nú ekki tekist alveg jafn vel og þeir höfðu hugsað sér. Það þarf að hafa í huga í þessum efnum hvernig staðið hefur verið að undirbúningi og mati á afleiðingum flutnings fyrir starfsemina og árangurs af henni til skemmri og lengri tíma. Hvernig hefur samráði verið háttað við fulltrúa þeirra sem hafa sérstakra hagsmuna að gæta? Hvernig hafa fjárhagsleg áhrif flutningsins til skemmri og lengri tíma verið metin? Hvernig hyggst ríkisstjórnin, sem ætlar að flytja Fiskistofu, halda starfseminni gangandi þannig að hún geti sinnt mikilvægum stjórnsýslu- og eftirlitsverkefnum sínum sem mega alls ekki liggja neitt niðri með tilliti til hagsmuna sjávarútvegsins og almannahagsmuna? Hvernig er ætlunin að byggja eins hratt upp og til stendur samkvæmt fyrirhugaðri framkvæmd þekkingu innan stofnunar til að hún ráð við flókin verkefni sín? Hvað kostar það? Svo þurfa menn líka að velta fyrir sér í samhengi hlutanna þegar menn ætla á vorþingi að flytja frumvarp um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða á sama tíma og sú stofnun sem fer með eftirfylgd og framkvæmd þeirra laga er rifin upp með rótum og sett í mikið uppnám. Það sýnir auðvitað hversu mikill flumbrugangur er á ferðinni og hversu óvandaður málatilbúnaðurinn allur er.

Ég kemst því miður ekki yfir fleiri efnisatriði málsins í þessari ræðu minni. Mig langar líka til, og mun gera það hér á seinni stigum, að ræða sérstaklega þær breytingar sem verið er að gera á upplýsingalögum í 10. gr. frumvarpsins sem mér finnast vera veigamiklar breytingar, a.m.k. þannig að þær kalli á mikla umræðu og upplýsingar úr ráðuneytinu. Ég bið hæstv. forsætisráðherra að búa sig undir það að ég muni koma með mjög gagnrýnar spurningar á þann lið, sérstaklega þegar kemur að utanumhaldi hvað varðar beiðnir frá almenningi til stjórnvalda (Forseti hringir.) sem verið er að bæta inn í upplýsingalögin. Ég ætla að láta þetta duga í fyrstu umferð um þetta mál.