144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[18:45]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér er svo sem ekkert að vanbúnaði að kveða fastar að orði hvað varðar þetta Fiskistofumál. Því var auðvitað rækilega klúðrað í byrjun og ég verð að segja fyrir mitt leyti sem stuðningsmaður þess að opinberum störfum sé dreift og eðlilegt sé að horfa til þess hvaða hlutdeild landsbyggðin, ýmis svæði þar hafa í slíkum störfum, að störf séu auglýst án staðsetningar þannig að þeir möguleikar séu hafðir opnir að menn með nútímatækni geti unnið ýmis verkefni annars staðar en hér í 101.

Ég er sárgramur hæstv. forsætisráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir að hafa klúðrað þessu svona herfilega og komið í raun og veru óorði á þessa aðferðafræði. Það er því miður þannig að þetta vinnur mjög gegn þeim málstað sem þó í orði kveðnu er verið að þjóna, þ.e. að slík starfsemi geti haft aðsetur annars staðar en á suðvesturhorninu eða á Reykjavíkursvæðinu.

Þá er auðvitað líka eðlilegt að líta til viðfangsefnanna sem undir eru hverju sinni og að sjálfsögðu er sjávarútvegurinn jafn þungur og hann er í atvinnulífi á landsbyggðinni, þá er ekkert skrýtið við það að menn velti fyrir sér þeim möguleikum á að stjórnsýsla honum tengd sé ekki endilega hér. En það væri samt æskilegra að geta rætt þetta óháð þessu leiðindamáli. Ég kem aftur að því með 1. gr., þetta er það fyrirkomulag sem var í lögum um Stjórnarráðið fram að 2011, að upplýst er, að ég velti fyrir mér lausn út úr þessum vanda að hvort sem þetta yrði niðurstaðan eða ekki þá mundu menn fara í vinnu sem væri greinilega mjög þörf, af því að mönnum eru nokkuð mislagðar hendur, að móta reglur, jafnvel lögfesta um það ef slíkar ákvarðanir eru teknar eða unnið er að slíkri stefnumótun sem hefur áhrif á starfandi stofnanir eða starfsmenn þar, þá sé það alltaf og ætíð gert með verulegum undirbúningi og að undangengnu rækilegu samráði og því leyft að þróast í einhvern tíma í staðinn fyrir að ætla að gera þetta svona.