144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

úrbætur í húsnæðismálum.

[15:25]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Frumvörp um úrlausn geta ekki komið of fljótt fram. Þetta er orðið stóralvarlegt ástand. Ég vil nefna tvennt sérstaklega.

Annars vegar það sem varðar vaxtaniðurgreiðslu. Það er mjög brýnt að breyta lögum á þann veg að sveitarfélög geti fengið vaxtaniðurgreiðslu vegna byggingar félagslegs húsnæðis óháð því hvar þau taka lán. Í dag er það bundið við Íbúðalánasjóð og Íbúðalánasjóður getur einfaldlega ekki boðið sambærileg kjör við það sem stærstu sveitarfélögin geta aflað á frjálsum markaði. Það er alveg fráleitt að skuldbinda sveitarfélögin við það að skipta bara við Íbúðalánasjóð að þessu leyti.

Hitt sem skiptir miklu máli að gera er að breyta reglum um skuldaþak sveitarfélaga þannig að áhugasöm sveitarfélög sem eru skuldsett hér í nágrenni höfuðborgarinnar, ég nefni bæði Kópavog og Hafnarfjörð vegna samtala við forustufólk þar, geti ráðist í frekari uppbyggingu félagslegs húsnæðis og reki sig ekki upp undir skuldaþakið sem sett hefur verið. Það eru engin efnisleg rök fyrir því að félagslegar íbúðir telji upp í skuldaþakið. (Forseti hringir.) Það er mjög mikilvægt að breyta reglum að þessu leyti og þetta eru hvort tveggja atriði sem er einfalt fyrir ráðherrann að koma strax með breytingartillögur um og geta skipt mjög miklu máli.