144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

vopnaburður og valdbeitingarheimildir lögreglunnar.

[15:51]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Umræðan sem hefur átt sér stað um vopnaöflun og vopnaburð lögreglu undanfarið hefur leitt ýmislegt sérkennilegt í ljós. Meðal þess sem stingur í augun er að innanríkisráðherra virðist eiga afar erfitt með að svara þremur fyrirspurnum þingmannsins Katrínar Jakobsdóttur um vopnaeign, vopnaöflun og vopnaburð lögreglu og Landhelgisgæslu. Það vekur furðu að ekki skuli vera hægt að svara spurningum hennar greiðlega. Maður spyr sig hvað veldur því að innanríkisráðuneytið getur ekki staðið skil á svörum við spurningum um það hvort við ákvörðun á því hvar skotvopn lögreglu skuli vistuð sé fylgt niðurstöðum þarfagreiningar, áhættumats eða annars formlegs mats á því hvar þörf sé fyrir slík vopn. Hvers vegna er ekki hægt að svara spurningum um það hvaða aðili innan eða utan lögreglu leggi mat á þörf lögreglunnar fyrir skotvopn, eins og hæstv. ráðherra nefndi hér áðan?

Sú kynduga og farsakennda atburðarás sem varð í kringum tilraunir Landhelgisgæslunnar til að flytja skotvopn frá Noregi afhjúpaði ýmsa veikleika í þessum málaflokki. Helst var að skilja af því sem fram kom í þessu samhengi að þörf íslenskra löggæslustofnana fyrir skotvopn réðist af því hvenær norski herinn þyrfti að losa sig við aflóga byssur. Lýsingar á samningagerðinni við Norðmenn báru með sér að það væri í meira lagi óljóst hvaða aðilar það væru innan íslenskra löggæslustofnana sem mættu skuldbinda íslenska ríkið til vopnaöflunar, en viðtakendur virtust hafa vaðið mjög í villu um það hvort þeir væru að taka við gjöfum eða gera samning um kaup á greiðsluandvirði samkvæmt því. Svona ráðslag er auðvitað ekki til þess fallið að auka traust almennings á löggæslustofnunum landsins og er það miður, því að vitaskuld viljum við öll geta treyst því að á þeim vettvangi sé ávallt vel staðið að og fagmannlega að verkum.

Það hefur komið fram að að minnsta kosti einhverjir í hópi þeirra sem stýra lögreglunni telja nauðsynlegt að bæta í vopnasafn löggæslustofnana í landinu en ekki hafa verið færð nein sannfærandi rök fyrir því að þetta mat sé rétt. Lögreglumenn hér á landi hafa fram til þessa gengið óvopnaðir til almennra löggæslustarfa, en vopnuð sérsveit lögreglunnar haft það hlutverk að fást við vopnaða menn þegar slík atvik koma upp. Þannig hafa verið glögg skil á milli hins almenna og hins sértæka þegar kemur að vopnaburði lögreglu (Forseti hringir.) og fyrirkomulagið hefur endurspeglað (Forseti hringir.) íslenskan veruleika þar sem vopnaskak (Forseti hringir.) heyrir sem betur fer til undantekninga.