144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

aðgengi að fjárhagsupplýsingum ríkisins.

381. mál
[16:14]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Þann 10. apríl árið 2013 skilaði starfshópur sem vann innan fjármálaráðuneytisins niðurstöðum sínum og tillögum hvað varðar opin gögn sem ber yfirskriftina Opin gögn og birting fjárhagsupplýsinga ríkisins. Þetta var liður í verkefni sem sett var af stað til þess að auka aðgengi fólks og Íslendinga allra að fjárhagslegum málefnum hins opinbera, sem ég tel að skipti alveg gríðarlega miklu máli í því að auka gagnsæi stjórnsýslunnar, auka aðhald og getur líka sparað töluverða vinnu og kostnað innan stjórnsýslunnar við það að svara fyrirspurnum um hin fjárhagslegu málefni. Þetta er líka hluti af nýjum tímum og liður í að nýta þá tækni sem til er til þess að veita góðan aðgang að fjárhagslegum málefnum hins opinbera. Það er orðið gríðarlega lítið mál að gera þetta.

Það sem nefndin gerði á þessum tíma var að hún bjó til og kláraði að búa til ákveðið leyfi sem gildir fyrir þau gögn sem opnuð eru og þá gagnapakka sem opnaðir eru innan fjármálaráðuneytisins. Síðan voru lagðir til og tilnefndir ákveðnir gagnapakkar sem voru opnaðir sem svokölluð hrágögn, þannig að aðilar sem til þekkja geti tekið gögnin og unnið með þau og birt skýrar myndir af fjárhagsupplýsingum hins opinbera. Við töldum best að birta þetta sem hrágögn en ekki á vefsíðu ríkisins, þ.e. að ríkið væri ekki að matreiða þessar upplýsingar heldur væru hrágögnin aðgengileg svo að þriðji aðili gæti nýtt þau og birt þau, t.d. fjölmiðlar.

Síðan þetta var hafa fleiri gagnapakkar ekki verið birtir. Ég er dálítið undrandi á því vegna þess að búið var að skilgreina leyfið og það hafði sýnt sig að tilraunin sem farið var af stað með í apríl 2013 gekk vel og gekk upp. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvað hafi verið gert síðan að þessi fyrstu skref voru stigin í apríl 2013 til þess að auka aðgengi að fjárhagsupplýsingum hins opinbera. Hvað ætlar hæstv. ráðherra sér að gera næst í þeim efnum?

Ég veit að það er í gangi vinna á vegum innanríkisráðuneytisins sem er þá að vinna fyrir Stjórnarráðið í heild sinni. Það er gott og vel. Sú vinna getur haldið áfram. En það sem ég átta mig ekki á er hvers vegna sú vinna virðist hafa stöðvað það að fjármálaráðuneytið héldi áfram að tilnefna gagnapakka og opna enn frekar fyrir aðgengi að fjárhagsupplýsingum hins opinbera, vegna þess að það á í raun ekkert að vera því til fyrirstöðu að halda verkefninu áfram og þarf aðeins að taka ákvörðun um gera það.