144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins til að ræða um Skólaþingið sem starfrækt er á Alþingi fyrir efstu bekki grunnskóla. Þar fara nemendur í hlutverkaleik og fá tækifæri til að setja sig í spor þingmanna og taka þátt í þingflokksfundum og nefndarfundum og hugmyndin er að gefa nemendum innsýn í það hvernig hlutirnir eru unnir á Alþingi og hvernig pólitískar ákvarðanir eru teknar. Mér finnst þetta mjög mikilvægt og var mjög áhugasöm þegar ég kynntist Skólaþinginu við upphaf þingsetu minnar. Ég hafði hins vegar aldrei heyrt um Skólaþingið og á ég þó tvö börn sem hafa gengið í gegnum grunnskólanám á Akureyri þannig að ég spurðist aðeins fyrir um það hvaða skólar það væru sem sæktu Skólaþingið. Frá 2007 hafa 70 grunnskólar heimsótt Skólaþingið, þar af eru 17 utan höfuðborgarsvæðisins og af þeim eru sex í næsta nágrenni, á Suðurnesjunum eða Vesturlandi. Enginn skóli frá Austfjörðum hefur nokkurn tíma heimsótt Skólaþingið, tveir frá Norðurlandi og tveir frá Vestfjörðum sem komu í einni ferð.

Mér finnst í rauninni ekki ásættanlegt að þessi mikilvæga fræðsla sé ekki aðgengileg nemendum nema rétt á höfuðborgarsvæðinu og í næsta nágrenni. Getur Skólaþingið farið um landið? Ég veit það ekki. Norska þingið býður skólum upp á ferðastyrki ef þeir vilja koma og heimsækja þingið. Er leið að bjóða framhaldsskólanemendum, t.d. í 1. bekk, að heimsækja Skólaþingið? Í framhaldsskólum er oft farið í menningar- og fræðsluferðir til Reykjavíkur. Ég vil velta þessu upp hérna. Ég veit ekki alveg hvert ég beini þessum spurningum, kannski til hæstv. forseta, en ég vonast til að hugsuð verði upp leið til að kippa þessu í liðinn, hvernig við tryggjum að börn á öllu landinu geti þekkst þetta boð. Mér finnst þetta ekki ásættanlegt og það ætti að vera fleirum umhugsunarefni en mér.