144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:08]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Að sjálfsögðu eru þetta stórfurðuleg vinnubrögð og að uppgötva það eftir yfirlýsingu um að flytja eigi Fiskistofu til Akureyrar að ekki sé lagagrundvöllur fyrir því, er náttúrlega eitt og sér alveg stórbrotið. Sú ákvörðun að flytja Fiskistofu með þessum hætti — það verður alltaf að halda því til haga, að gera þetta svona — hefur verið gagnrýnd mjög málefnalega og á yfirgripsmikinn hátt af BHM og fleirum og starfsmönnum Fiskistofu. Það stendur eftir að það er bara yfirmaður stofnunarinnar sem ætlar að flytja norður. Það blasir við að þarna mun glatast þekking. Flutningurinn kostar peninga. Öðrum opinberum störfum er að fækka á sama tíma á Akureyri sem vekur spurningar um hver heildarmyndin sé og heildarstefnan. Verður þjónustan betri? Það er ekki tryggt.

Öll þessi sjónarmið, svo ekki sé talað um bara hið augljósa, réttindi starfsmanna og fjölskyldna þeirra, um að geta gengið út frá einhverju ákveðnu í samskiptum sínum við ríkisvaldið, eru svo augljóslega brotin í þessu ferli, með þessari ákvörðun. Það eru líka ótrúleg viðbrögð að læra þá ekki frekar af gagnrýninni og reyna að taka mark á henni heldur að gefa bara í, koma með heimildarákvæði í frumvarpi þar sem gert er ráð fyrir að ákvarðanir í framtíðinni um flutning stofnana megi taka nákvæmlega svona, án rökstuðnings, án samráðs, án nokkurra faglegra sjónarmiða. Það er auðvitað alveg fáránlegt og ekki boðlegt.