144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:36]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Já, ég leyfi mér að velta því fyrir mér hver raunverulegur tilgangur með frumvarpi forsætisráðherra er. Andi frumvarpsins er greinilega sá að minnka vægi siðareglna og það er algjörlega ólíðandi að siðareglur, sem eiga að gilda um athafnir og ákvarðanir ráðherra og stjórnsýslunnar allrar, séu á höndum eins manns. Hvernig í ósköpunum eigum við að geta treyst því að faglegar ákvarðanir séu teknar varðandi þær gjörðir? Hvernig eigum við að treysta forsætisráðherra, án þess að ég sé að vefengja hans persónu — við verðum að geta treyst því að ferlið sé faglegt.

Við erum að tala um þessar siðareglur og við getum líka bent á að sá dráttur sem orðið hefur á því að skipa nýja nefnd er pólitísk ákvörðun og það er ákvörðun sem hæstv. forsætisráðherra tekur sjálfur. Það er ekki hægt að skýla sér bak við það að það sé svo mikið að gera að hann geti ekki tekið þessa ákvörðun sjálfur. Það er pólitísk ákvörðun og meðvituð ákvörðun um að skipa ekki aftur nefnd og sú ákvörðun kemur fram í frumvarpinu.

Þetta smitar yfir í þingið og þingstörfin, þannig að við þurfum líka að velta því fyrir okkur. Kannski er upplagt fyrir þingið að taka það til skoðunar og umræðu, hvort ekki sé hægt að fara aftur í þá vinnu að móta siðareglur fyrir þingmenn og þingið allt.