144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[17:37]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir ræðuna. Hún endurspeglar þá skoðun sem ég veit að þingmaðurinn hefur haft lengi og hefur eflaust komið fram þegar unnið var áður í velferðarráðuneytinu að frumvarpi í samræmi við samkomulag sem var gert við sveitarfélögin og aðila vinnumarkaðarins þegar bótatímabilið var stytt þarsíðast.

Það sem ég vildi hins vegar benda hv. þingmanni á er að það kom fram í ræðu hennar að engar upplýsingar væru um að þetta hefði skilað árangri. Ég hef ekki heyrt neina umræðu hér í þinginu um það. Það var ekki lagt til á þeim tíma sem flokkur þingmannsins var með velferðarráðuneytið eða félagsmálaráðuneytið að afnema skilyrðingar sem sneru að atvinnuleysisbótatímabilinu. Þá var í tvígang, eins og ég nefndi í ræðu minni, unnið að sambærilegu frumvarpi.

Ég hef heldur ekki haft neinar upplýsingar um að sérstaklega hafi verið farið í að taka á því að nánast öll sveitarfélögin, fyrir utan eitt sem við höfum fundið, eru með einhvers konar skilyrðingar í reglum sínum um fjárhagsaðstoð.

Það er líka mikilvægt að benda á að þau verkefni sem Samfylkingin og Vinstri grænir hófu í Hafnarfirði og verkefnið sem Besti flokkurinn og Samfylkingin hafa staðið að í Reykjavík hafa einmitt skilað miklum árangri. Vinnumálastofnun birti nýlega að birta tölur um það að eftir að fólk lauk bótarétti þar þurftu aðeins um 27% að leita eftir fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna. Í kynningu sem framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga hélt á ársfundi Vinnumálastofnunar um verkefnið Áfram kom fram að um helmingurinn af þeim sem hafði verið vísað til Vinnumálastofnunar í tengslum við verkefnið hefði fengið (Forseti hringir.) vinnu. Ég fann alla vega fyrir mjög mikilli jákvæðni og ánægju með þess háttar reglur. (Forseti hringir.) Um leið erum við að tryggja það að þær reglur sem sveitarfélögin hafa verið með (Forseti hringir.) séu í samræmi við stjórnarskrá Íslands.