144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[13:53]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er ágætisspurning en það eru nú engin smáfyrirtæki sem eru að beita sér fyrir því innan Samtaka ferðaþjónustunnar að áhersla verði lögð á komugjöld. Samkvæmt því sem fram kemur í frétt Kjarnans eru þetta mjög umsvifamikil ferðaþjónustufyrirtæki á borð við Center Hotels, GoNorth, Hótel Cabin, Hótel Klettur, Hótel Örk, Iceland Excursions, Kea-hotels, Norðursigling og Viator. Þetta eru engin smáfyrirtæki sem þarna eru á ferðinni sem eru að óska eftir því að þetta mál verði allt tekið upp.

Það er alveg rétt, sem fram hefur komið í máli hæstv. iðnaðarráðherra, að ekki hefur verið eindrægni innan Samtaka ferðaþjónustunnar þegar kemur að vali en það hefur ekki verið eindrægni þar um að fá á sig náttúrupassa. Það hefur verið ósætti um hvort leggja ætti áherslu á gistináttagjald eða komugjöld, sem sagt aðrar leiðir en þær sem hæstv. ráðherra hefur lagt áherslu á. Það virðist vera sama niðurstaðan þar og hér hjá mér og hv. þingmanni að sú leið sem hefur orðið fyrir valinu virðist vera sú versta af þeim sem í boði voru.

Eins og ég sagði í fyrra andsvari þá var þetta mál líka rætt á síðasta kjörtímabili þannig að það er greinilegt á öllu að núverandi stjórnvöld voru algerlega óundirbúin, höfðu engar hugmyndir um hvernig þau ætluðu að útfæra þetta þegar þau komust til valda, byrjuðu algerlega á núlli, voru ekkert búin að ræða þetta sín á milli og hafa ekki enn komist að sameiginlegri niðurstöðu um það hvernig eigi að halda á þessum mikilvæga málaflokki. Þess vegna nefni ég þetta og segi að þetta sé auðvitað til marks um mjög kæruleysisleg vinnubrögð og lélega verkstjórn.