144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[18:33]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að gera lítið úr því að það er erfitt og flókið málið sem við ræðum hér og hæstv. ráðherra er viss vorkunn vegna þess að ekki er hægt að segja að það að sé einhver ein leið í þessu sem öllum líkar, þá hefði væntanlega verið búið að koma henni í gagnið. Það verður líka að segjast að við Íslendingar höfum verið skammarlega værukær þegar kemur að þessum málaflokki. Ágangur á náttúruna af völdum ferðamanna hefur verið gríðarlegur og í einhverjum tilfellum hafa verið unnin óafturkræf spjöll á náttúrunni.

Hér í athugasemdunum er talað um að ferðamönnum hafi farið að fjölga nokkuð hratt upp úr síðustu aldamótum. Ég vann sem leiðsögumaður í kringum 1994/1995 og fram undir aldamót og þá þegar var ágangurinn orðinn mjög mikill og voru vandræði með að komast á klósett. Ég man eftir að hafa þurft að láta ferðamenn pissa úti í móa og á fjölförnum stöðum voru farnir að myndast alls konar stígar, því að það var í sjálfu sér ekki hirt um að setja upp handrið eða beina fólki í ákveðna átt. Við höfum sofið á verðinum í áratugi, mundi ég segja. Það er kominn tími til að gera eitthvað. Reyndar var Framkvæmdasjóður ferðamannastaða mjög jákvætt og gott skref.

Mér finnst mikið af gagnrýninni sem hefur komið fram í umræðunni alveg eiga rétt á sér. Það er stofnkostnaðurinn og rekstrarkostnaðurinn við náttúrupassann og eftirlitið sem getur reynst flókið og kynning á passanum og í rauninni öll starfsemin. Ég var að hlusta á umræðuna áðan og mig minnir að hv. þm. Pétur H. Blöndal segði að hægt væri að selja passann hvar sem er, í rútunni á leiðinni frá Keflavíkurflugvelli, á hótelum. Þá fór ég að velta fyrir mér hvort það þyrfti að vera mynd af viðkomandi í passanum. Getur fólk lánað hvert öðru passann? Það eru alls konar atriði sem þarf að útfæra. Auðvitað gera menn það en þetta er flókið. Hvar verður passinn seldur? Ég ímynda mér að maður þurfi að hafa mynd af sér, eða hvað?

Það vekur athygli mína á bls. 25 í frumvarpinu að það er eins og ekki sé gert ráð fyrir fjármunum eða stöðugildum í eftirlitið og í þessa starfsemi alla saman. Það stendur beinlínis á bls. 25 að gert sé ráð fyrir einu nýju stöðugildi hjá Ferðamálstofu vegna þessa og mun sá aðili sinna eftirliti ásamt öðrum starfsmönnum sem eru starfandi hjá stofnuninni í dag. Maður veltir fyrir sér hvort ekki sé búið að tryggja fjármagn í verkefnið.

Ég get heldur ekki látið hjá líða að rifja upp eitt af fyrstu málum nýrrar ríkisstjórnar sem tók við, sem var að hætta við að hækka virðisaukaskatt á gistingu úr 7% í 14%. Hann átti að skila 500 milljónum á árinu 2013, 1,5 milljarði 2014, og þær tekjur hefðu í rauninni orðið meiri vegna þess að það komu fleiri ferðamenn en við höfðum áætlað. Þetta skattþrep var talið svo flókið, en ég veit ekki hvort það er flóknara en sú aðgerð sem við erum að fara í í dag. Ég var ekki ánægð með þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar því að við verðum að þora að skattleggja þessa atvinnugrein eins og allar aðrar.

Ég man að í umræðunni var mikið talað um að ekki væri rétt að hækka álögur á ferðaþjónustuna og rætt um samkeppnishæfni Íslands í því samhengi, að hærri skattur gæti dregið úr ásókn ferðamanna til landsins. Þá getur maður spurt sig hvort það að vera með ferðamannapassa sé ekki angi af sama meiði. Mun það ekki á einhvern hátt skerða samkeppnishæfni okkar? Mér finnst þetta mjög flókin leið og velti fyrir mér hvort ekki væri skynsamlegra að skattleggja þessa atvinnugrein, hvort sem það er gisting, ferðalög, heimsóknir á baðstaði, hvalaskoðanir eða hvað það nú er, að við séum með virðisaukaskatt á þessa atvinnugrein eins og allar aðrar og hún njóti þess svo í uppbyggingu innviða.

Það hefur verið rætt um ýmsar aðrar leiðir. Eins og ég sagði í upphafi er ekkert einfalt og mér finnst ekkert liggja beinna við en annað. Komugjöldin eru flókið mál og þá kannski sérstaklega vegna þess að eins og ég skil þetta verður að leggja komugjöld á innanlandsflugið líka. Ég held að allir séu sammála um að á álögur á innanlandsflugið sé ekki bætandi. Mundu menn taka eitthvert gjald í burtu og setja það gjald á? Ég sé ekki alveg fyrir mér að það hringl skili endilega einhverju. Hins vegar má að sama skapi segja að komugjald sé einföld leið. Það þarf í rauninni ekki að vera mjög hátt. Það gæti þess vegna verið 200 kr., ef það er lagt á svona ótrúlega marga ferðamenn og þá sem fljúga er það fljótt að koma og ætti að vera einfalt að innheimta gjaldið. Mér finnst þetta þó ekki vera leið sem steinliggur.

Ég er heldur ekki endilega sammála þeim sem tala mikið fyrir gistináttagjaldinu, fyrir því að hækka það. Mér finnst það skila tiltölulega lágum upphæðum núna. Það leggst líka misjafnlega á, það er á gistináttaeiningu og þá er bara ákveðið verð þannig að það skiptir máli hvort einhver er að selja hótelherbergi á 25 þús. kr. eða 3 þús. kr. Ég held að fjallaskálar séu undanþegnir en tjaldsvæðin ekki. Mér finnst líka ekki sanngjarnt að einhver einn geiri innan ferðaþjónustunnar taki að sér alla skattheimtuna. Hún ætti þá að leggjast jafnt á alla, rútufyrirtækin og alla þá sem koma að þessu, og þá kannski í formi virðisaukaskatts.

Ég heyrði hv. þm. Steingrím J. Sigfússon nefna áhugaverða hugmynd í útvarpsþætti sem var bílastæðagjald, þ.e. að þar sem búið er að koma upp bílastæði, eins og raunin er við flesta fjölförnustu staðina, væri einfaldlega rukkað fyrir það. Eins og við þekkjum er hægt að nota kort eða peninga og setja miða í gluggann og getur maður átt von á því að eftirlitsmaður nappi mann ef maður stendur sig ekki í stykkinu. Þá er ég að hugsa það þannig að við séum ekki með einhverja eina lausn heldur hækkum við vaskinn á atvinnugreinina og svo er gistináttagjald í einhverri mynd hugmynd á fjölförnustu stöðunum. Þar er síðan svo sannarlega búið að búa til bílastæði og hefur þurft að leggja út í kostnað við það og er þá óhugsandi að greiða gjald fyrir að fá að leggja bílnum sínum? Það þekkir maður víða erlendis.

Ef ég mætti ráðleggja hæstv. ráðherra væri ég hrifnust af því að við mundum innheimta hér og þar á sanngjarnan hátt. Mér finnst bílastæðagjaldið alveg þess virði að athuga betur.

Ég hef áhyggjur varðandi passann. Ég tek undir það sem hefur verið sagt hér varðandi fólk og þá sérstaklega útlendinga, hvernig tryggjum við að allir viti af passanum, að þeir mæti ekki bara á staðinn og eru þeir þá sektaðir, eða er þeim vinsamlegast bent á að fara og kaupa sér passann? Svo getur ferðamaður lent í því að hann er einhvers staðar og er ekki búinn að verða sér út um passann og er sektaður. Eða hann sér að sér og kaupir passann, fer síðan á næsta stað en þar er hann rukkaður vegna þess að þar er einhver sem vildi ekki taka þátt í kerfinu. Í millitíðinni fór hann jafnvel í gegnum Húnavatnssýslurnar og náði sér í hraðasekt hjá duglegu lögreglunni á Blönduósi. Ég velti fyrir mér hvernig þetta getur litið út í raunveruleikanum fyrir ferðamennina og hvernig við ætlum að tryggja að þeir viti allir af náttúrupassanum.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða fékk álitlega upphæð fyrir 2013, ef ég man rétt, um 400 milljónir, sem þessi ríkisstjórn ákvað síðan að skera niður og hefur síðan þurft að sækja það fjármagn á fjáraukalögum sem er ekki til eftirbreytni. Mér finnst það rétt sem kemur svo sem fram í frumvarpinu, að það sé ekki endilega gott að það þurfi að vera 50% mótframlag vegna þess að aðstæður þeirra sem sækja í sjóðinn eru svo mismunandi. Þetta var samt mikilvægt skref á sínum tíma og algjörlega nauðsynlegt og vonbrigði að framlögin í sjóðinn skuli hafa verið lækkuð eins og gert var.

Til að vera á jákvæðu nótunum vil ég segja að mér sýnist frumvarp til laga um landsáætlun um uppbyggingu innviða fyrir ferðamenn, sem hangir svolítið saman með við þetta frumvarp hér, vera mjög gott skref í rétta átt og byggja á langtímasýn, en við ræðum það síðar.

Eitt sem mig langar að leggja til er að við höfum, ef náttúrupassinn verður að veruleika, kjark til að meta hvernig til hefur tekist eftir einhvern tíma og horfast í augu við það hvort þetta hafi gengið eða ekki og breyta þá. Þetta er svolítið mikið tilraunaverkefni. Ég er ekki alveg sátt við aðferðina, eins og komið hefur fram, og mundi vilja að við skattleggðum atvinnugreinina og ferðamenn á annan hátt. Ef af þessu verður, og ég býst við að það geti orðið, vona ég að við horfum til þess hvernig til hefur tekist, metum það og séum tilbúin að viðurkenna ef það gekk ekki nógu vel. Kannski gengur þetta mjög vel. Ég vil leggja áherslu á það og að við breytum um kúrs ef í ljós kemur að þetta hefur ekki borið tilætlaðan árangur.

Af því þetta er 1. umr. finnst mér ekkert meira um málið að segja hér og nú. Ég á von á því að komi gríðarlega margar umsagnir um málið, það fái mikla umræðu í nefndinni og svo verði 2. umr. fjörug þegar að henni kemur.