144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

Náttúruminjasafn Íslands.

[15:35]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Heldur þótti mér síðari ræða hv. þingmanns verri en sú fyrri, mér fannst sú fyrri málefnalegri. Það er auðvitað hægt að rekja nýorðna sögu um það sem var lagt upp með varðandi húsnæði í Perlunni sem ég held að hafi ekki verið alveg nægilega vel skipulagt. Ég held þó að það sé ágætt sem hv. þingmaður sagði í upphafi, það væri óþarfi að draga þetta inn í einhverja flokkspólitíska línu, en ég vil þó líka minna hv. þingmann á að kjörtímabilið er enn ekki hálfnað. Það er kannski fullsnemmt að gefa út slíkar yfirlýsingar en ég vil þó segja að núna stendur yfir vinna sem hv. þingmaður nefndi varðandi sýningu í Perlunni. Ég hef átt fundi með fulltrúum frá Reykjavíkurborg og fleirum þar sem verið er að skoða hvaða möguleika við getum þróað þar til að taka að minnsta kosti skref í rétta átt.

Hvað varðar síðan það að koma upp þessu höfuðsafni viðurkenni ég að það er ansi stórt og mikið verkefni sem við stöndum frammi fyrir á sama tíma og okkur vantar líka mjög fjármagn til þeirra höfuðsafna (Forseti hringir.) sem við höfum nú þegar komið á laggirnar. Verkefnið er ekki einfalt og hefur flækst fyrir mönnum um marga áratugi.