144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

starfshópur um myglusvepp.

488. mál
[16:52]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og ráðherra fyrir svarið. Ef ég heyrði rétt er starfshópurinn um það bil að skila af sér eða skilar af sér í þessum mánuði — var það ekki, í febrúarmánuði? Það er aðeins seinna en gert var ráð fyrir, en það gerir ekkert til vegna þess að við skulum hafa það í huga að tillagan, sem ég var fyrsti flutningsmaður að, var samþykkt á Alþingi með 58 samhljóða atkvæðum 12. maí sl. Það er ekki langur tími. Það hefur því verið unnið rösklega að þessu. Það var það loforð sem fyrrverandi hæstv. umhverfisráðherra gaf mér þegar þessi tillaga var samþykkt og sett strax í gang.

Ég legg áherslu á það við nýskipaðan umhverfisráðherra að fljótt verði tekið til við að vinna frekari mál sem þarf að vinna í framhaldi af þessari skýrslu, eins og hugsanlegar lagabreytingar og annað. Ég þakka alveg sérstaklega fyrir að tryggingamál hafi verið skoðuð í nágrannalöndum okkar vegna þess að þau þurfum við að taka þarna inn, hvort sem það verður í gegnum Viðlagasjóð eða annað. Ég hef áður tekið dæmi um það: Brenni hús til grunna hjá manni þá er það fullbætt (Forseti hringir.) en þurfi að rífa hús algjörlega vegna myglusvepps (Forseti hringir.) þá er það óbætt og eigandinn situr uppi með allan kostnað við það og skuldir af viðkomandi húsnæði. (Forseti hringir.) Það getur ekki gengið, virðulegi forseti.