144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

jöfnun húshitunarkostnaðar.

383. mál
[17:17]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka öllum þeim sem tóku til máls og hæstv. ráðherra fyrir mikinn áhuga því að koma hratt og vel með lausnir á þessu máli.

Í upphafi vil ég segja að mér finnst þetta snúast um að við höfum horft upp á það hérna í gegnum tíðina, hver svo sem er við völd, að menn koma og segja: Við bættum í, við bættum í húshitunarkostnaðinn, við bættum í niðurgreiðslu til dreifingar. Þetta á að gerast sjálfkrafa. Þetta á að gerast, eins og þetta frumvarp um dreifikostnaðinn núna, þannig að þetta sé eitthvað sem uppfærist sjálfkrafa. Það á að vera fullkomlega eðlilegt að rafmagn kosti það sama hvar sem er á landinu, það á vera fullkomlega eðlilegt að menn borgi sambærilegt verð fyrir að kynda hús sín og það á ekki að vera háð geðþóttaákvörðunum stjórnmálamanna hverju sinni hvort það er svoleiðis eða ekki. Það er þess vegna sem er svo mikilvægt að hraða þeim málum sem ráðherra er að vinna að. Ég fagna mjög þeim yfirlýsingum. Það er vegna þess að þetta á ekki að vera spurning um það hvort menn eru tilbúnir til þess að setja 100 milljónum meira eða minna hverju sinni í þessa niðurgreiðsluliði. Þetta eru sjálfsagðir hlutir, sjálfsögð réttindi og það er ekki þannig að verið sé að niðurgreiða kostnaðinn við að búa á landsbyggðinni.

Það hefur verið tekin mikil umræða um það meðal annars í Noregi að setja verði ákveðna fjármuni til landsbyggðarinnar en þeir komi margfalt til baka vegna þess að í mörgum hinna dreifðu byggða er verið að skapa gjaldeyrisverðmæti, það er verið að skapa ýmis verðmæti, ferðaþjónustu, þar er iðnaður og ýmis atvinnuuppbygging sem skilar því margfalt til þjóðfélagsins sem sett var þangað inn. Það er því ekki rétt að tala um að hér sé á einhvern hátt verið að kosta það að halda byggð í landinu. Síður en svo.

Ég vil þakka öllum þeim sem tóku þátt í þessari umræðu. Ég fagna því að hæstv. ráðherra er að vinna í málinu. Ég hvet hann til þess að gera það hratt og vel vegna þess að hver mánuður sem líður er dýr fyrir landsbyggðina og dýr fyrir þau svæði sem þurfa að kynda með rafmagni og bera hærri húshitunarkostað af þeim sökum.