144. löggjafarþing — 61. fundur,  2. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[17:53]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég var nú að benda á ýmsar leiðir til skattheimtu og benda á það að hækkun virðisaukaskattsins núna eða neðra þrepsins færði ríkissjóði 8,8 milljarða á hverju ári. Það eru ýmsar leiðir og stjórnarandstaðan hefur sett fram ýmsar hugmyndir sem stjórnin og stjórnarmeirihlutinn hefur hafnað. Við þekkjum þetta allt.

Varðandi stjórnarskrána og einkaeignarréttinn, þar vísar hv. þingmaður í hve afdráttarlaus hann er í sínum huga, en hann bendir jafnframt á að það geti komið upp núningur á milli túlkunar á lagaklásúlum og stjórnarskrárgreinum líka. Sá núningur getur verið á milli mannréttinda annars vegar og eignarréttinda hins vegar. Ég var að vísa til þess að almannaréttindin og mannréttindin sem við búum við í þessu landi séu í mínum huga grundvallaratriði. Ég hef líka oft bent á það í umræðu um stjórnarskrána og eignarréttinn að ég leggi ekki saman ef á að fara út í slíkar túlkanir, eignarrétt á heimili eða 200 þúsund milljörðum sem einhverjir segjast hafa komist yfir og túlkast undir þeirra einkaeign sem kunna að vera mikil áhöld um hvernig þeir hafi aflað. Tilveran er ekki svona klippt og skorin. Hún er það ekki.

Hér skiptumst við í flokka og fylkingar um það hvort virða eigi almannarétt á Íslandi eins og hann hefur þróast frá árdögum eða hvort við ætlum að fara að þeim hugmyndum sem nú eru uppi að kröfu landeigenda sem vilja geta gert náttúruperlur sér að féþúfu. Ég held að þessi skipting sé ekki bara milli stjórnar og stjórnarandstöðu, því fer fjarri, vegna þess að mjög margir einstaklingar í þessu samfélagi, vítt og breitt, eru hjartanlega sammála því sem ég er að segja þótt þeir séu ekki á sama róli og ég í stjórnmálum. Þannig að þessi skipting er ekki svona. (Forseti hringir.) Þetta frumvarp nýtur að mínum dómi ekki mikillar lýðhylli. Fólk vill halda í gömul og forn (Forseti hringir.) almannaréttindi þegar landið okkar (Forseti hringir.) er annars vegar.