144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[14:40]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegi forseti. Það hefur verið fróðlegt og áhugavert að fylgjast með og hlýða á ræður hv. þingmanna um þetta merkilega mál, náttúrupassann. Umræðan hefur verið nokkuð kostuleg, annars vegar um almannaréttinn svokallaða og gjaldtökuna almennt hins vegar. Þeir sem lýst hafa yfir andstöðu sinni við frumvarpið hafa lagst gegn gjaldtöku almennt á aðgang að náttúruperlum landsins en samt hefur mér þótt örla á jákvæðri afstöðu til gjaldtöku, og kannski í sumum tilfellum gott betur en það, til dæmis varðandi aðgang að snyrtingu og bílastæðum. Þess vegna velti ég fyrir mér hvar í raun almannaréttinum sleppi í huga þessara málflytjenda vegna þess að menn eru í öðru orðinu á móti gjaldtöku en eru hins vegar hlynntir einhvers konar gjaldtöku vegna þjónustu sem þeir hafa metið að sé mjög nauðsynleg á sumum stöðum.

Mér hefur fundist hv. þingmenn, sumir hverjir, fara út um víðan völl í skilgreiningu sinni á almannarétti og skýrt þann rétt ansi víðtækt og þess vegna vil ég halda því til haga að almannaréttinn má auðvitað skerða. Það er gjarnan gert með vísan til hagsmuna sem eru þá miklum mun stærri sem menn hafa metið svo, m.a. með vísan til náttúrusjónarmiða. Ég hef ekki trú á öðru en að hv. þingmenn geti verið sammála mér í því að nú er svo komið að á sumum stöðum á Íslandi þarf að skerða þennan almannarétt, einmitt með vísan til náttúrusjónarmiða. Ég vil einnig nefna að ég tel hér heldur víðtæka eða framsækna skýringu á almannaréttinum sem verið hefur í gildi hér frá örófi alda, hann nær auðvitað ekki yfir hvers kyns ferðalög manna yfir náttúru Íslands. Ég tel til dæmis afar hæpið að almannarétturinn nái yfir ferðalög rútufyrirtækja með erlenda eða íslenska ferðamenn á sumum svæðum, eins og við þekkjum, þar sem ágangur til dæmis rútufarþega er orðinn gríðarlegur. Almannarétturinn nær auðvitað ekki yfir slík ferðalög manna yfir náttúru Íslands.

Ég vil nú í seinni ræðu minni um þetta mál vekja athygli á því að einkaaðilar geta auðvitað séð um sig sjálfir í þessum efnum. Gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi að einkaaðilum gefist kostur á að ganga inn í það kerfi sem hér er lagt til að tekið verði upp. Ég legg áherslu á það og mundi hvetja einkaaðila til að horfa frekar til lausna á eigin forsendum sem geta verið margvíslegar og henta þeim betur en þetta kerfi.

Ég vil að lokum beina því til þeirrar hv. nefndar sem fær málið til umfjöllunar að skoða nú vel og rækilega kosti og möguleika til dæmis hvað ríkisjarðirnar varðar, og nú vík ég máli mínu að þeim svæðum sem ríkið hefur yfirráð yfir. Ég tel rétt að nefndin skoði kosti þess að fela til dæmis stjórnum þjóðgarðanna að útfæra leiðir til fjáröflunar til að standa undir rekstri þeirra staða sem stjórnunum er falið að sjá um. Ég vek athygli á því, eins og ég kom inn á í fyrri ræðu minni, að til að mynda Vatnajökulsþjóðgarður hefur á að skipa sjö manna stjórn sem starfar allt árið. Hvað er því til fyrirstöðu að þeirri stjórn verði falið að leita leiða til þess að fjármagna viðhald og rekstur á Vatnajökulsþjóðgarði? Er það ekki einmitt hlutverk stjórnarinnar að gera það? Það væri þá ekki úr vegi að slíkar stjórnir reyndu að gera það til dæmis með hagsmuni náttúrunnar í huga og leitast þá við að stýra ágangi ferðamanna eftir mánuðum ársins, sem er auðvitað mismikill nú, þannig að hann verði jafnari yfir árið.

Ég hef fulla trú á því að nefndin skoði ýmsar hliðar þessa máls og vænti þess að það verði áfram jafn áhugavert til umræðu hér í salnum og áður.