144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[14:52]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hefur nú lýst því í ræðustóli í umræðum um þetta mál að sé væri hlynntur því að selja inn á bílastæði og selja inn á klósett á ferðamannastöðum. Það er nefnilega þjónusta, virðulegi forseti, og það er markaðurinn. Markaðurinn kallar eftir þeirri þjónustu og við því kalli þarf að bregðast. Hið sama á við um útsýnið. Markaðurinn kallar eftir því að fá að horfa á náttúru Íslands. Þótt við sem hér búum teljum okkur eiga landið verðum við þó að leyfa útlendingum aðgengi að þessum náttúruperlum og við viljum auðvitað taka á móti sem flestum. Það er eftirspurn á tilteknum markaði sem við þurfum að svara. Það er ekkert að því að hafa tekjur af landinu svo lengi sem það er gert í sátt við náttúruna sjálfa, að sjálfsögðu. Um það snýst þetta mál að öllu leyti.

Ég hef hins vegar bent á að ég telji helsta gallann, eða meðal galla á þessu fyrirkomulagi vera að það veitir ekki svigrúm, að því ég best fæ séð, til þess að stýra aðgengi inn á þessa ferðamannastaði eftir árstíðum eins og hægt væri að gera með til dæmis gjaldheimtu sem væri mishá eftir árstíma. Ég teldi það betur til þess fallið til að koma til móts við náttúrusjónarmið ef hægt væri að gera það þannig með ýmiss konar gjaldtöku, ekki bara vegahliðum eða hliðum inn á svæðin. Ég hef nefnt það að hægt er með margvíslegum öðrum hætti að hafa tekjur af vinsælum ferðamannastöðum; með uppbyggingu á þjónustu, með uppbyggingu á veitingarekstri, hótelgistingu og þess háttar, veglegum bílastæðum og rukka þannig inn. Það er margt í mörgu, eins og sagt er, í þessu máli.