144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[15:26]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, það er minn skilningur á því sem kemur fram í spurningu hv. þingmanns að í 4. gr. sé beinlínis verið að hvetja til þess, það er verið að opna fyrir það að einkaaðilar selji aðgang að náttúruperlum í einkaeigu. Það er þannig. Það er kannski stærri frétt en margt annað í þessu frumvarpi ef það er skoðað.

Hv. þingmaður spyr líka hvort VG eða sú sem hér stendur geti fallist á blandaða leið. Ég er þeirrar skoðunar og ég fór raunar yfir það í ræðu minni að einhvers konar samsett leið væri leiðin. Þetta snýst um það að til verði tekjur í ríkissjóði sem síðan verði ráðstafað til þessara verkefna. Það er auðvitað að hluta til með virðisaukaskatti á ferðaþjónustuna. Það er að hluta til gistináttagjald, breytt og bætt og með auknu eftirliti (Forseti hringir.) og áhersla á að draga úr svartri atvinnustarfsemi — einhver samsetning (Forseti hringir.) af þessu. Það er það sem ég (Forseti hringir.) held að í raun og veru allt skynsamt fólk sjái að er (Forseti hringir.) eina leiðin í þessu máli.