144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[16:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Kristjáni Möller fyrir jákvæða ræðu. Þetta er ein af þeim fáu sem er jákvæð. Ég er sérstaklega glaður, herra forseti, yfir því að hv. þingmaður sé í hv. nefnd sem fær málið til skoðunar. Það er þá vaxandi von til þess að eitthvað skynsamlegt komi út.

Eins og hv. þingmaður sagði er þetta spurningin um val á leiðum. Það eru ýmsar leiðir til skoðunar. Nefndin mun væntanlega fara mjög ítarlega í gegnum málið og fara í gegnum kosti og galla þeirra leiða sem eru til umræðu. Þannig að mér líst vel á þetta upplegg að skoða allar leiðir.

Mér fannst hv. þingmaður vera frekar neikvæður gagnvart náttúrupassanum, hann á kannski eftir að skoða nákvæmlega hvað hann er í raun jákvæður skattur, eða þjónustugjald; fólk muni væntanlega verða mjög ánægt með að borga þann skatt. Þetta eru 10 dollarar eitthvað slíkt fyrir útlendinga og munar ekki mikið um það. Menn eru þá að borga fyrir þá aðstöðu sem er nauðsynleg í vaxandi mæli til að vernda íslenska náttúru, vegna þess að í vaxandi mæli sjáum við átroðsluna sem er ekki vegna þess að einn maður labbar yfir eitthvert svæði, heldur vegna þess að þúsund manns labba yfir það og skemma það illilega.