144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[16:33]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal er kátur maður og glaður og fer oft með húmoríska þætti hér í ræðustól. Það er gaman að hlæja að mönnum. Hann hefur reynt að setja okkur í heldur spélegt ljós sem erum harkalega andsnúnir náttúrupassa hans og hæstv. ráðherra og dregið upp ansi kómíska mynd af okkur ráfandi um hálendið með Grágás og berjandi menn í höfuðið ef þeir vilja ekki veita okkur rétt okkar til að ganga um landið eins og menn hafa gert.

Svo segir hv. þingmaður: Menn verða að gera sér grein fyrir því að tímarnir eru breyttir og Grágás er ekki lengur við lýði. Það breytir engu um það að þótt hún sé horfin sem réttarbálkur þá er margt sem úr henni lifir góðu heilli. Eitt af því sem stendur óhaggað er einmitt almannarétturinn og hann er í gadda sleginn í náttúruverndarlögum. Bara til að upplýsa hv. þingmann um það munu eftir því sem ég best veit ný náttúruverndarlög taka gildi hér 1. júlí næstkomandi og þar er heldur verið að rýmka almannaréttinn frá því sem áður var. Það er alla vega ljóst að þingheimur hefur verið á þessari skoðun.

Hv. þingmaður hefur gjarnan í ræðum sínum talað eins og það hafi orðið einhver straumhvörf með setningu stjórnarskrárinnar 1944 og vísar í 72. gr. hennar. Það er auðvitað þannig að Íslendingar hafa átt þrjár stjórnarskrár og það hafa verið efnislega svipuð eignarréttarákvæði í þeim öllum en á gildistíma allra hafa líka verið lög sem hafa kveðið á um almannaréttinn og nábýli þessara tveggja þátta, stjórnarskrár og almannaréttarins, hefur verið afskaplega gott þangað til kemur að þessu frumvarpi. En það eru aðeins tveir þingmenn sem hafa talað eins og einkaeignarrétturinn, eins og hann er varinn í stjórnarskránni, bægi frá almannaréttinum. Það er hæstv. ráðherra og það er hv. þm. Pétur H. Blöndal. Það er eins og þessir ágætu þingmenn og hæstv. ráðherra skilji ekki að það eru margvíslegar kvaðir sem eru settar á eignarréttinn og hv. þingmaður hefur greitt atkvæði með mörgum þeirra. Ég gæti talið þessi lög upp.