144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[16:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Nú er það þannig að við hv. þingmenn höfum öll svarið eið að stjórnarskránni og í henni er ákvæði um eignarréttinn. Menn geta ekki talað um svokallaðan eignarrétt eða einkaeignarrétt, talað hann einhvern veginn niður, hann er þarna og fer ekki nema gildandi stjórnarskrá verði breytt, þeirri sem núna er í gildi. Það má taka hluti af eigandanum gegn gjaldi og um það er ákvæði víða.

Almannarétturinn rekst nefnilega á náttúruna, ekki aðeins eignarréttinn heldur líka á náttúruna. Ég hef margbent á að einn maður veldur ekki tjóni, 10, jafnvel 100 valda ekki tjóni en þegar þeir eru orðnir 10 þúsund eða 50 þúsund geta þeir valdið óbætanlegu tjóni á náttúrunni. Þess vegna verður hver og einn að hlíta reglum um að ganga á stígum og öðru slíku, burt séð frá öllum almannarétti og vitnandi í Grágás.