144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Eiturlyfjasalar og smálánafyrirtæki setja marga í hættu sjálfsvígshugsana. Því miður ánetjast ótrúlegur fjöldi fólks smálánafyrirtækjum og vandi þess eykst eins og snjóbolti sem rennur niður fjallshlíð og skilur eftir sig slóð eyðileggingar. Þannig hefur líf fjölda fólks verið lagt í rúst þegar lánin hafa farið úr öllum böndum og hver mánaðamót eru tími örvæntingar þar sem launin duga ekki fyrir afborgun láns og eina leiðin er enn eitt okurlánið með glæpsamlegum kostnaði. Þessi bolti er mörgum ofviða og fólk brotnar.

Samkvæmt heimildum föður fórnarlambs fá þessi okurlánafyrirtæki leyfi skuldara sinna til að fara inn á alla bankareikninga þeirra og geta hvenær sem er og hvenær sem peningur kemur inn á reikning viðkomandi tekið hann út. Ekki stoðar að opna nýja reikninga því að þeir eru opnir þessum glæpamönnum. Fólk hefur lent inni á sjúkrahúsi mánuðum saman og aðstandendur taka eftir því að reglulega eru bankabækur tæmdar ef viðkomandi hefur lent í klóm þessara fyrirtækja og skuldirnar orðið þeim ofviða. Gróði þessarar starfsemi, sem ég vil kalla glæpastarfsemi, er líka gríðarlegur.

Virðulegi forseti. Helstu viðskiptavinir þessara fyrirtækja eru börn og unglingar, eiturlyfjasjúklingar og alkóhólistar, fátækt fólk og þeir sem eru á bótum, veikustu bræður og systur okkar í samfélaginu. Foreldri hafði samband við mig, barn hans hafði skilið eftir bréf til foreldra sinna og tilkynnt þeim að lífið væri ekki lengur þess virði að berjast áfram við óvinnandi skuldafjall sem hlaðist hafði upp hjá smálánafyrirtæki. Með snarræði var lífi bjargað og skuldirnar greiddar af fjölskyldunni.

Er það svo að við Íslendingar viljum að svona starfsemi sé leyfð í landinu þar sem gróðinn kemur frá þeim sem veikast standa?

Virðulegi forseti. Ég vil því spyrja hv. þm. Frosta Sigurjónsson, formann efnahags- og viðskiptanefndar, hvað hafi verið gert til að koma í veg fyrir okurlánastarfsemi smálánafyrirtækja og hvort starfsemi þeirra samræmist lögum og góðum viðskiptaháttum í landinu.