144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[16:47]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir mjög góða ræðu. Mig langar eiginlega í andsvari mínu við hana að taka svolítið upp þráðinn þar sem hv. þingmaður hætti, um það að ef fólk þiggur ekki einhverra hluta vegna eða vill ekki fara í virkniúrræði þá á það við annars konar félagsleg vandamál að glíma. Þess vegna þarf að mínu mati að bregðast við með allt öðrum hætti en þeim að taka af því bæturnar.

Það er eiginlega þetta sem ég vil spyrja hv. þingmann út í og sýn hennar á ætlaðan tilgang þessa frumvarps, að koma fólki í virkni. Ég tel að hér séum við að fara í kolöfuga átt og með því að taka þó þessa litlu fjárhagsaðstoð af fólki séum við að ýta fólki út í enn meiri vanvirkni, og vil þess vegna spyrja hv. þingmann: Er ekki hætt við því að með þessari leið ýtum við fólki enn lengra út á jaðarinn og gerum stöðu fólks sem er nú þegar í mjög erfiðri félagslegri stöðu enn verri?