144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[17:59]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég er mjög hlynnt hvötum en ég er ekki hlynnt því að verið sé að beita refsingu ef hvatarnir virka ekki sem skyldi.

Hv. þingmaður taldi upp ýmis virkniúrræði og að vinna með því fólki sem þiggur fjárhagsaðstoð, hvort sem það er ungt fólk, eldra eða einhvers staðar þar á milli. Allt er það gott og blessað og ég tek heils hugar undir að við eigum að beita sem mestum og bestum meðulum til þess að nálgast einstaklingana, efla sjálfsmynd þeirra og hvetja og hjálpa fólki til að finna sína fjöl, sína hæfileika og möguleika á stuðningi til náms. Allt er það alveg ljómandi gott og ég get tekið undir allt sem hv. þingmaður taldi upp. Ég er bara ekki hlynnt því að menn segi síðan: Ef þetta gengur ekki upp nákvæmlega eins og við vildum helst þá munum við svelta þig til hlýðni. Ég mundi halda að þeir sem eru kennaramenntaðir og kenna og vinna með börnum og unglingum, þekktu að slík úrræði duga ekki. Maður nær því besta fram hjá hverjum einstaklingi með því að vinna með honum á jákvæðum og uppbyggilegum nótum en ekki með því að segja við hann: Ef þú gerir ekki þetta og þetta gengur ekki svona eða hinsegin þá skaltu hafa verra af. Mér finnst andinn vera svolítið þannig í frumvarpinu.

Getum við ekki beitt jákvæðum úrræðum og reynt að veita því fólki sem er í erfiðri stöðu sem mestan stuðning, uppbyggilegan stuðning í verki og svo séð hver útkoman verður? (Forseti hringir.) Ég held að hún gæti bara orðið mjög góð.