144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[19:20]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mér hefur fundist svolítið sérstakt hvernig hæstv. ráðherra hefur haldið á máli sínu í andsvörum við stjórnarandstöðuþingmenn. Mér hefur á köflum fundist eins og hún sé sjálf í stjórnarandstöðu og beiti neikvæðri vörn fyrir þetta mál.

Ég hef spurt sjálfa mig að því hver heimilin í landinu séu þegar kemur að þessari aðgerð, af því að þetta hugtak var markaðssett fyrir kosningar og virðist bara ná yfir það að lækka skuldir sumra heimila. Það virðist ekki ná til þess að félagsþjónusta sveitarfélaga eigi að koma til móts við þegna sína með tilhlýðilegum hætti, ekki að mínu mati að minnsta kosti, og ríkisstjórnaraðgerðirnar felast svo líka í því að skerða atvinnuleysistryggingar. Því sagði ég hér í fyrri ræðu minni og segi það aftur að mér finnst þetta vera hálfgerðar mótvægisaðgerðir hér. Það á að létta á fjárhagslegri stöðu sveitarfélaga með því að fara í þann hóp fólks sem hvað verst stendur.

Ég skil heldur ekki af hverju, þegar ráðherrann ber fyrir sig og telur upp sveitarfélög og regluverkið og allt það, ekki er hægt að lagfæra það, annaðhvort af hennar hálfu eða innanríkisráðherra, ef þetta þarf að koma einhvers staðar við sveitarstjórnarlögin, í stað þess að beita svona neikvæðri vörn fyrir frumvarpið.

Í 2. gr. á bls. 4 er talað um aðgerðir til handa því fólki sem einhverra hluta vegna hefur lent, vil ég segja, á framfærslu sveitarfélaga — ég lít þannig á að enginn fari þangað vegna þess að hann langi svo óskaplega mikið til þess — og ég spyr af hverju ekki megi beita þessum aðgerðum án skilyrða, þ.e. að aðstoða viðkomandi, gefa honum kost á þátttöku í vinnumarkaðsúrræðum, beina honum í réttan farveg o.s.frv. Af hverju þarf það að vera skilyrði háð? Hefur félagsmálaráðherra svona litla trú á því fólki sem um ræðir að hún telji að þessu verði ekki við komið nema beita það þvingunaraðgerðum?

Áðan var rætt um börn og ungt fólk og ég nefndi að kennitölur skipta máli í þessu samhengi. Það skiptir máli hvenær fólk sem missir vinnuna er fætt, það fær ekki vinnu jafnvel þó að það vilji vinna. Þetta fólk þarf kannski á endanum að segja sig á sveit, eins og talað var um hér í gamla daga, og leita sér þessarar aðstoðar en vill vinna. Það vill ekki vera í þessari stöðu en á ekki annarra kosta völ vegna þess að nú ráða fyrirtæki mörg hver út frá kennitölum.

Vinnumarkaðurinn er mjög breyttur og meðal annars er brotið á ungu fólki og verið að borga því jafnaðarlaun. Við ræddum þetta töluvert af því að þetta kom upp á borðið í sumar. Nú á dögunum var ungur maður að tjá sig á Vísi, minnir mig, og þar kom fram að hann fékk uppsagnarbréf þegar hann ætlaði að verða trúnaðarmaður af því að hann hafði gengið eftir því að fá yfirvinnu greidda o.s.frv. Það er því mjög margt sem letur ungt fólk og það eldra líka varðandi viðhorf til vinnumarkaðarins, hvernig þú átt að vera og hvernig þú átt að hegða þér, og mér finnst við ekki eiga að ýta undir það með lagasetningu.

Mig langar í örstuttu máli að koma að ójöfnuði barna og vitna í skýrslu Barnaheilla frá því í vor, eða Save the Children. Þar er talað um að mörg börn búi við óviðunandi aðstæður hvað varðar húsnæði og húsnæðiskostnaður er mjög hátt hlutfall af tekjum þeirra sem minnst hafa. Tekjur heimila, bæði hvað varðar laun og félagslegar bætur, eru helsti áhrifaþáttur barnafátæktar. Ójöfnuður er ekki einungis einn orsakavaldur fátæktar heldur einnig afleiðing. Börn sem alast upp við fátækt eru líklegri til að búa áfram í fátækt sem fullorðnir einstaklingar, fátæktin flyst á milli kynslóða. Á bls. 6 er talað um að óheimilt sé að skilyrða greiðslur sem snúa að börnum, svo sem eins og fyrir tómstundir eða skólamáltíðir. Mér þætti vert að vita hvort það sé þannig (Forseti hringir.) og hvort ráðherrann getur ekki tekið undir það, þegar hún flytur lokaræðu sína, að þetta sé eitt af því sem hafa eigi í huga.