144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[11:21]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Nú sitjum við báðar í velferðarnefnd og þetta mál mun koma þangað inn og við munum senda það út til umsagnar eins og önnur mál. Þegar við fjöllum um almannatryggingar þá sendum við málin víða, m.a. til Öryrkjabandalagsins og Landssambands eldri borgara. Þegar við fjöllum um atvinnuleysistryggingar þá eru atvinnulausir ekki hópur sem er með samtök en verkalýðshreyfingin er fulltrúi þeirra þar sem þetta eru vinnumarkaðstengd réttindi. Þegar kemur að fólki á fjárhagsaðstoð þá velti ég fyrir mér hverjir séu raunverulega málsvarar þess. Hvert getum við sent mál sem varðar það út til umsagnar? Hverjir eru þess bærir að tala fyrir þeirra hönd, til hvaða samtaka leitum við? Þetta er hópur sem er í mjög veikri stöðu. Þetta er mjög fjölbreyttur hópur og flestir þarna tilheyra honum í skamman tíma, sumir auðvitað oftar en einu sinni, en þetta er samt það fólk sem oft og tíðum er í erfiðastri aðstöðu til þess að verja réttindi sín og stöðu.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann: Ef Alþingi ætlar ekki að verja réttindi þessa hóps, hverjir væru einna líklegastir til þess að standa vörð um hann og tala fyrir hans hönd?