144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[18:00]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi er lagt til að framlengja innleiðingu á samstarfsverkefni ríkis, sveitarfélaga og heildarsamtaka fatlaðs fólks um notendastýrða persónulega aðstoð um tvö ár, eða til ársloka 2016, en innleiðing verkefnisins hófst um mitt ár 2011. Mér finnst, í ljósi þess að við erum að taka skref áfram í þá átt að bjóða upp á notendastýrða persónulega aðstoð, rétt að fara aðeins yfir söguna í þeim efnum og til að sýna að það gerist ekki alveg á einum degi að geta boðið fötluðu fólki upp á þá mikilvægu þjónustu, sem er auðvitað framtíðin. Við eins og önnur ríki í kringum okkur, Norðurlönd, eigum að vinna að því og höfum verið að gera það. Með lögum frá árinu 2010, með breytingu á lögum um málefni fatlaðra, var kveðið á um að koma skuli á sérstöku samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga og heildarsamtaka fatlaðs fólks um innleiðingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar.

Fram kemur að markmið verkefnisins sé að þróa leiðir til að taka upp notendastýrða persónulega aðstoð við fatlað fólk með markvissum og árangursríkum hætti og miðað skuli við að þjónustan verði skipulögð á forsendum notandans og undir verkstjórn hans um leið og hún verði sem heildstæðust milli ólíkra þjónustukerfa.

Í fyrrnefndu ákvæði til bráðabirgða er einnig gert ráð fyrir að faglegt og fjárhagslegt mat á samstarfsverkefninu fari fram fyrir árslok 2014. Núna á árinu 2015 erum við að ræða hér að þetta samstarfsverkefni, tilraunaverkefni, verði framlengt um tvö ár. Í athugasemdum við það frumvarp sem var samþykkt árið 2010 kemur fram að notendastýrð persónuleg aðstoð snúist um að einstaklingar sem þurfi aðstoð í daglegu lífi stjórni því sjálfir hvers konar stoðþjónustu þeir njóti, hvar og hvernig hún sé veitt og af hverjum. Markmiðið sé að fatlað fólk geti notið sjálfstæðis í lífi sínu til jafns við ófatlað fólk. Enn fremur kemur fram að þetta sé fyrsta skrefið í þá átt að innleiða notendastýrða persónulega aðstoð sem eitt meginform þjónustu við fatlað fólk.

Ég tel það mjög brýnt að við höldum áfram þessari vegferð þó að maður hefði kannski gjarnan viljað að við værum komin lengra og værum nú að tala um að lög væru sett um að okkur væri skylt að bjóða upp á þessa notendastýrðu persónulegu aðstoð. Í nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar frá árinu 2010 kemur fram og bent er á að notendastýrð persónuleg aðstoð eigi sér ríka stoð í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og segir, með leyfi forseta:

„Ríkin, sem eru aðilar að samningi þessum, viðurkenna jafnan rétt alls fatlaðs fólks til að lifa í samfélaginu og rétt þess til að eiga valkosti til jafns við aðra og skulu gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir til þess að fatlað fólki megi njóta þessa réttar til fulls og stuðla að fullri þátttöku þess í samfélaginu án aðgreiningar ...“

Þar kemur einnig fram í viðkomandi nefndaráliti að notendastýrðri persónulegri aðstoð sé m.a. ætlað að tryggja fötluðum einstaklingum réttinn til sjálfstæðs lífs þar sem þeir geti sjálfir ráðið sér aðstoðarfólk og stjórnað sínu lífi þrátt fyrir þörfina á aðstoð annarra.

Ég hef ákveðnar áhyggjur af fjármögnun þessa verkefnis og vona að orð hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra standi, þ.e. að þessu verkefni verði tryggt nægilegt fjármagn því það er auðvitað forsenda þess að þetta gangi allt upp. Árið 2010 var skipuð verkefnisstjórn þar sem fjöldi aðila kom að undirbúningi þessa mikilvæga verkefnis. Eins og komið hefur fram er áralöng reynsla af notendastýrðri persónulegri aðstoð annars staðar á Norðurlöndum og við höfum búið við þetta samstarfsverkefni frá árinu 2011.

Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á ákvæðum í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Þar er lagt til að ráðherra verði heimilt að setja reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni og kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Ég fagna mjög þeim tillögum að lagabreytingum í þessum efnum. Það er löngu orðið tímabært og við vitum að einelti og áreitni er því miður á allt of mörgum vinnustöðum. Þegar fatlaðir einstaklingar eiga í hlut eru þeir í miklu veikari stöðu gagnvart slíku og nauðsynlegt að við reisum upp öll lög, ekki bara reglugerðir heldur lagasetningu í þeim efnum, sem nú er hægt að reisa í kringum það að verja þá einstaklinga sem veikastir standa gegn slíku á vinnustöðum. Ég tel mjög brýnt að þetta verði lög, ekki einungis reglugerð, til að sýna vilja löggjafans gagnvart því hve þetta er grafalvarlegt mál. Við höfum heyrt dæmi þess því miður allt of oft hve fatlaðir einstaklingar lenda í slíku ásamt ófötluðum, en fatlaðir einstaklingar eru auðvitað miklu viðkvæmari gagnvart þessu.

Ég minntist á fjármálin áðan, að ég hefði vissar áhyggjur af þeim og vísaði í máli mínu til þess að ekki hefði verið gert ráð fyrir fjármagni í þetta tilraunaverkefni árið 2014 í fjárlögum þá. Við erum að tala um að gerður verði 61 samningur árið 2015 og árið 2016 verði enn fremur 61 samningur, sem er vissulega fjölgun frá árinu í fyrra en þá voru þeir 51, byrjuðu með 22 samningum árið 2012, fóru árið 2013 í 54, svo að vissulega erum við alltaf að stíga skref fram á við í þeim efnum, sem er mjög gott, þó að ég telji að við verðum að halda vel á spöðunum og tryggja fjármagn fyrir árið 2016, en fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir að 82 millj. kr. vanti til að tryggja verkefnið árið 2015. En góðar umræður hafa verið um þetta brýna mál sem liggur fyrir þinginu og ég vil lýsa ánægju minni með að lagafrumvarp þetta sé komið fram. Ég veit að hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra þekkir málefnið mjög vel. Við sátum báðar í félagsmálanefnd á sínum tíma þegar þessi mál voru til umræðu á síðasta kjörtímabili. Ég veit að hæstv. ráðherra er ánægð með að geta fylgt þessu brýna verkefni eftir sem ráðherra og geta unnið að því að málið verði í framhaldinu gert að lögum, þ.e. að við bjóðum upp á notendastýrða persónulega aðstoð.

Ef ég tek saman í lokin það sem mér finnst standa upp úr varðandi frumvarpið sem við þurfum að huga að í nefndarstarfinu þá þurfum við auðvitað að tryggja fötluðu fólki sem besta stöðu í samfélaginu. Við þurfum líka að fylgjast vel með því að sá sem nýtur þjónustunnar stýri því hvernig hún er veitt en að starfsfólk, hversu gott sem það er, fari ekki að stýra og stjórna notanda þjónustunnar því að mikilvægt er að fatlað fólk ráði sínu lífi. Þetta er auðvitað liður í því að gera viðkomandi einstaklinga sem sjálfstæðasta í sínum athöfnum og ákvörðunum. Ég tel einnig mikilvægt að við reynum að halda áfram að stuðla að því að fjölga samningum. Eftir því sem samningarnir eru fleiri höfum við líka fjölbreyttari samninga undir, því að fötlun er auðvitað mjög mismunandi og ólíkir hópar þar og þá liggur fyrir betri greining á því þegar kemur að lagasetningu í þessum málaflokki. Og við þurfum vissulega að tryggja fjármagnið í málaflokkinn.

Svo hefur komið fram í umræðunni að starfsfólk sem hefur sinnt þessari þjónustu frá því að við hófum þessa vegferð er því miður ekki á góðum launum. Við þurfum að horfa til þess að það verði tryggt að viðkomandi starfsfólk, sem er auðvitað að sinna mjög ábyrgðarmiklu starfi, fái sómasamleg laun. Ég tel líka að við þurfum að skoða kostnaðarskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga. Við vitum að sveitarfélögin hafa mörg hver verið áhyggjufull yfir því að hafa ekki fengið næga fjármuni með málaflokknum. Mörgum sveitarfélögum finnst líka að þau ráði kannski ekki við það ef þessi notendastýrða persónulega aðstoð bætist við. Við þurfum að tryggja að ekki verði munur þar á eftir því hvort sveitarfélög eru fjársterk eða ekki, og að fatlaður geti óskað eftir samningi við sitt sveitarfélag um slíka þjónustu eða samtök sveitarfélaga um slíka þjónustu á landshlutavísu. Ég hef jafnframt ákveðnar áhyggjur af því sem hefur líka verið í umræðunni varðandi möguleika fólks að flytja sig um set á milli sveitarfélaga ef það hefur fengið samning við viðkomandi sveitarfélag og flytur búferlum, að það verði ekki eitthvað flókið að fá samning við nýtt sveitarfélag og kosti einhvern biðtíma og annað því um líkt. Við þurfum að gera þetta eins lipurt og auðvelt og hægt er til að skapa ekki einhverja átthagafjötra gagnvart fötluðum í þeim efnum og tryggja þarf stöðu fólks hvar sem það býr á landinu til að geta nýtt sér þessa þjónustu.

Annars er ég mjög ánægð með frumvarpið og veit að fjallað verður vel um það í velferðarnefnd. Ég vil að endingu segja að ég tel það mjög mikilvægt að Alþingi lögleiði samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.