144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[18:34]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Þetta er gríðarlega flókið samspil eins og fram hefur komið. Ég hef sjálf töluverðan bakgrunn og reynslu af því að mennta táknmálstúlka og vinna með notendur slíkrar þjónustu, það er má segja það sem ég kann, en svo lendir maður í pólitík. Það er býsna mikil áskorun að venja börn við það að nýta sér faglega þjónustu af þessu tagi og hafa skilning á þeim faglegu núningsflötum sem upp geta komið og ekki síður þurfa fagaðilarnir, þeir sem fara með viðfangsefnið, að hafa býsna öfluga stöðu til þess að vinna í þessu samspili án þess að taka völdin af viðkomandi. Það er mjög miðlægt í þessari umræðu allri, vald og valdaleysi, þ.e. hver hefur vald á örlögum sínum í daglegu lífi og hver hefur stöðu til þess að fara með það vald eða taka það vald af viðkomandi eða sýsla með það á einhvern hátt.

Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann um annað sem ég sé ekki hér, hvort það hafi komið upp á borð hópsins. Ég sé að hér er talað um drög að námskeiðslýsingu fyrir starfsmenn sem vinna við notendastýrða persónulega aðstoð. Ég hef tilhneigingu til að ætla að þeir sem eigi að geta sinnt svona flókinni og náinni þjónustu þannig að fagmennska sé höfð að leiðarljósi þurfi býsna góðan grunn, sérstaklega í siðferðilegum úrlausnarefnum. Ég vil því spyrja um það hvort menn hafi einhverja sýn á það hversu mikil þessi menntun þurfi að vera þannig að vel geti verið. Það er mjög mikilvægt fyrir reisn og sjálfsvirðingu (Forseti hringir.) þess sem þjónustunnar nýtur (Forseti hringir.) að mörkin séu mjög skýr.