144. löggjafarþing — 66. fundur,  16. feb. 2015.

veiðar og vinnsla erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands.

418. mál
[15:56]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þingskjali 626 sem er 418. mál. Um er að ræða frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 22/1998, um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands.

Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar minni háttar breytingar á lögum í þeim tilgangi að styrkja eftirlit með fiskveiðum erlendra skipa til samræmis við alþjóðasamning Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna frá 2009 um hafnríkisaðgerðir til að fyrirbyggja, hindra og uppræta ólöglegar, ótilkynntar og eftirlitslausar veiðar. Um er að ræða nokkrar minni háttar breytingar á gildandi fyrirmælum um skyldu fánaríkis erlends fiskiskips til að tilkynna um veiðar skipsins áður en það kemur til íslenskrar hafnar og eftirlitsaðgerðir íslenskra stjórnvalda af því tilefni.

Samningurinn um hafnríkisaðgerðir var undirritaður af fulltrúa Íslands, ásamt fulltrúum átta annarra þjóðríkja og Evrópusambandsins, 22. nóvember 2009. Ísland tók virkan þátt í gerð samningsins og mikilvægt er fyrir stöðu Íslands sem ábyrgrar fiskveiðiþjóðar að fullgilda samninginn. Vinna að fullgildingu samningsins hefur engu að síður farist fyrir.

Sem stendur hafa 11 ríki fullgilt samninginn en 25 ríki þurfa að fullgilda hann svo að hann öðlist gildi. Meðal ríkja, eða ríkjasambanda, sem hafa fullgilt hann eru Evrópusambandið, Nýja-Sjáland og Noregur. Íslensk stjórnvöld hafa lýst því yfir um nokkra hríð að til standi að fullgilda samninginn. Á fundi fiskimálanefndar FAO í júní 2014 lýsti fulltrúi íslenskra stjórnvalda því yfir að frumvarp þetta yrði lagt fram á yfirstandandi löggjafarþingi.

Tilgangur samningsins um hafnríkisaðgerðir er að fá ríki með samræmdum aðgerðum til að stuðla að upprætingu ólögmætra veiða. Við Íslendingar beittum okkur við viðræður um gerð samningsins, en við höfum átt mikla hagsmuni af því að dregið verði úr ólögmætum veiðum, einkum á Reykjaneshrygg.

Í samningnum er mælt með skýrum hætti fyrir um samræmdar skoðunaraðgerðir og lokanir á aðgengi að höfnum þegar fánaríki skips getur ekki staðfest að afli um borð í skipinu hafi verið veiddur með lögmætum hætti og í samræmi við fullnægjandi heimildir, eða ef skoðun á skipinu gefur til kynna að skipið hafi stundað ólögmætar veiðar. Þá er gert ráð fyrir miklu samráði milli ríkja við framkvæmd skuldbindinga samkvæmt samningnum.

Ég vil upplýsa að Landhelgisgæslan í samvinnu við Fiskistofu hefur þegar með höndum hafnríkiseftirlit samkvæmt reglum NEAFC og NAFO, þ.e. fiskveiðistjórnarstofnunum í Norður-Atlantshafi, sem tekur mið af samningum um hafnríkisaðgerðir. Þannig er þegar til reynsla hjá íslenskum aðilum að framkvæmd samræmdra hafnríkisaðgerða og er því ekki gert ráð fyrir að frumvarpið muni fela í sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð sem orð er á gerandi.

Virðulegi forseti. Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á 3. gr. laganna í því skyni að tryggja að lögin samrýmist samningum um hafnríkisaðgerðir, en hér skiptir einkum máli að lagt er til að ákvæði laganna um aðgang að höfnum gildi einnig um skip sem stunda veiðar og vinnslu á sjávarafla og eru, eins og segir í frumvarpinu, í eigu eða rekstri aðila sem hefur orðið uppvís að því að ganga gegn samningnum um nýtingu og varðveislu lifandi auðlinda hafsins sem Ísland er aðili að, þar með talin skip sem hafa verið skráð hjá svæðisbundnum fiskveiðistjórnarstofnunum, og sigla ekki undir fána aðildarríkja þeirra, fyrir brot gegn reglum settum á grundvelli slíkra samninga.

Að öðru leyti koma fyrirmæli 1. gr. frumvarpsins að mestu óbreytt úr gildandi lögum. Nokkur viðbót felst í fyrirmælum um hvernig skuli ráðstafa afla úr skipum sem hafa verið að ólögmætum veiðum.

Með 3. gr. frumvarpsins er lagt til að sett verði skýr heimild til handa ráðherra til setningar reglugerðar um framkvæmd laganna. Sérstaklega er tekið fram að heimilt sé að birta erlendan texta reglna um eftirlit með hafnkomu erlendra fiskiskipa. Það sýnist eðlilegt þar sem um er að ræða erlenda aðila og reglunum verður þannig ekki beitt gagnvart íslenskum aðilum með sama hætti.

Virðulegi forseti. Samhliða þessu frumvarpi mun utanríkisráðherra mæla fyrir þingsályktunartillögu sem hann hefur reyndar nú þegar gert um fullgildingu samningsins. Samningurinn verður prentaður sem fylgiskjal með tillögunni.

Á fylgiskjali með frumvarpi þessu er að finna kostnaðarumsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins um frumvarpið. Ég vil að öðru leyti vísa til þeirra athugasemda sem fylgja frumvarpinu en þar er ítarlega fjallað um og gerð grein fyrir efni þess.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.