144. löggjafarþing — 67. fundur,  17. feb. 2015.

handtaka og afhending manna til og frá Íslandi á grundvelli handtökuskipunar.

463. mál
[14:14]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um handtöku og afhendingu manna til og frá Íslandi vegna refsiverðra verknaða á grundvelli handtökuskipunar.

Í frumvarpinu er lagt til að sameinuð verði í einni heildarlöggjöf ákvæði laga nr. 12/2010, um handtöku og afhendingu manna á milli Norðurlandanna vegna refsiverðra verknaða. Þar er norræn handtökuskipun og ný lagaákvæði er leiða af skuldbindingum Íslands vegna hinnar svokölluðu evrópsku handtökutilskipunar, þ.e. samningur milli Evrópusambandsins og lýðveldisins Íslands og konungsríkisins Noregs um málsmeðferð við afhendingu milli aðildarríkja Evrópusambandsins og Íslands og Noregs sem undirritaður var 28. júní 2006.

Alþingi samþykkti þingsályktun þann 16. mars 2007 þar sem ríkisstjórninni var heimilað að staðfesta fyrrnefndan samning milli Evrópusambandsins og lýðveldisins Íslands og konungsríkisins Noregs. Með frumvarpi þessu eru lagðar til lagabreytingar til að unnt sé að fullgilda samninginn.

Í frumvarpinu er gerð tillaga að nýju fyrirkomulagi varðandi afhendingu sakamanna milli ríkja sem kemur í stað hefðbundins framsalsfyrirkomulags og byggist á gagnkvæmri viðurkenningu og trausti ríkja á réttarkerfum hvers annars. Þörfin á nýju fyrirkomulagi um framsal byggist meðal annars á því að í auknum mæli eru afbrot skipulögð og ganga þvert á landamæri. Árangursrík barátta gegn afbrotum á svæði þar sem frjáls för fólks ríkir gerir þá kröfu að eitt ríki setji ekki upp hindranir vegna rannsóknar eða málsmeðferðar í sakamálum.

Á undanförnum áratugum hefur þörfin fyrir alþjóðlegt samstarf við rannsókn og meðferð sakamála aukist til muna þar sem skipulögð brotastarfsemi er í eðli sínu alþjóðleg og fer fram þar sem ávinnings má vænta. Ísland hefur ekki farið varhluta af þessari þróun en opinberar skýrslur síðastliðinna ára lýsa umtalsverðri aukningu skipulagðrar brotastarfsemi hér á landi. Afhendingarfyrirkomulagið sem sett er á fót með hinni evrópsku handtökuskipun á þannig að vera árangursríkara í baráttu gegn afbrotum.

Hið nýja fyrirkomulag sem kveðið er á um í frumvarpinu er í nokkrum grundvallaratriðum ólíkt því sem nú er. Í fyrsta lagi gilda styttri tímafrestir um málsmeðferð og afhendingu. Í öðru lagi er hugtakinu „framsal“ skipt út fyrir orðið „afhending“ til að leggja áherslu á að um fljótvirkara kerfi er að ræða en það er í samræmi við orðanotkun í evrópsku handtökuskipuninni þar sem orðið „surrender“ er notað í staðinn fyrir „extradition“. Í þriðja lagi kemur það ráðuneyti sem fer með dómsmál ekki að málsmeðferðinni þar sem í samningunum er miðað við að ákæruvaldið eða önnur stjórnvöld í réttarkerfinu sem tilnefnd eru gefi út handtökuskipun, taki á móti og fjalli um hana og taki ákvörðun um hvort orðið skuli við beiðni um afhendingu eða ekki.

Eins og fyrr greinir er með frumvarpi þessu verið að innleiða efni samningsins um hina evrópsku handtökuskipun. Í samningnum eru ákvæði um form og efni afhendingarbeiðna, málsmeðferð þeirra og fresti til ákvörðunartöku en lögð er áhersla á að ákvörðun dragist ekki úr hófi fram. Einnig er mælt fyrir um hvernig staðið skuli að afhendingu viðkomandi einstaklings og innan hvaða tímamarka afhending skuli fara fram. Reglan um tvöfalt refsinæmi er meginregla samkvæmt samningnum sem þýðir að brot sem stendur að baki afhendingarbeiðni verður að vera refsivert í báðum ríkjum sem eiga hlut að máli. Með sérstakri yfirlýsingu er þó heimilt að hverfa frá þessari meginreglu að því er varðar tiltekin brot. Frumvarpið gerir ráð fyrir að slík yfirlýsing verði gefin út af hálfu Íslands.

Í öðru lagi er í samningnum gert ráð fyrir þeirri meginreglu að ríki afhendi eigin ríkisborgara. Í samningaviðræðum Íslands og Noregs við Evrópusambandið, um aðkomu ríkjanna tveggja að hinni evrópsku handtökuskipun, var af hálfu Íslands lögð áhersla á að ekki yrði fallist á afhendingu íslenskra ríkisborgara. Var því sett heimild í samninginn um að frá framangreindri meginreglu mætti víkja með sérstakri yfirlýsingu. Frumvarpið gerir ekki ráð fyrir að slík yfirlýsing verði gefin út. Sú niðurstaða byggir á heildarmati á hagsmunum Íslands af þátttöku í hinni evrópsku handtökuskipun en á undanförnum árum hefur þörfin fyrir alþjóðlegt samstarf við rannsókn og meðferð sakamála aukist til muna.

Skipuleg brotastarfsemi er í eðli sínu alþjóðleg og fer fram þar sem ávinnings er að vænta. Miðað við norræna og evrópska þróun framsalsreglna kann sú afstaða Íslands að afhenda ekki eigin ríkisborgara mjög að orka tvímælis. Í því sambandi má nefna að ef ákveðið er að víkja frá meginreglunni er öðrum ríkjum heimilt að beita gagnkvæmni við framkvæmd handtökuskipunar og synja afhendingu ríkisborgara sinna til Íslands. Ljóst er að með slíku fyrirkomulagi mun þátttaka Íslands takmarkast að verulegu leyti enda er meginreglan um afhendingu eigin ríkisborgara ein grundvallarregla samstarfsins. Þá má nefna að evrópska handtökuskipunin tekur einungis til samstarfs aðildarríkja Evrópusambandsins og því væri áfram óheimilt að framselja íslenska ríkisborgara til ríkja utan þess.

Í þriðja lagi er óheimilt samkvæmt samningnum að synja um afhendingu á grundvelli stjórnmálabrota. Heimilt er að gefa út yfirlýsingu um að framangreind meginregla gildi aðeins í tengslum við hryðjuverkabrot.

Líkt og fram hefur komið felur frumvarpið í sér reglur sem eiga að auðvelda samstarf ríkja þegar kemur að afhendingu manna vegna refsiverðrar háttsemi. Með því að sameina í eina heildarlöggjöf ákvæði laga nr. 12/2010, um norræna handtökuskipun, og ný lagaákvæði er leiða af samningi við hina evrópsku handtökuskipun á að tryggja að samstarf á þessu sviði verði skilvirkara og fyrir hendi séu árangursríkari tæki í baráttu gegn afbrotum þvert á landamæri.

Hæstv. forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.