144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

glufur í skattalögum.

[15:22]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég get svo sem ekki svarað spurningum um stöðu mála í fjármálaráðuneytinu en tek þó undir túlkun hv. þingmanns á orðum mínum að langmestu leyti um mikilvægi þess að stoppa í glufur en þó með þeim fyrirvara að við viljum ekki gera það á þann hátt að við lokum landinu og komum í veg fyrir erlenda fjárfestingu. Með öðrum orðum, við viljum hafa hér skattumhverfi sem hvetur til fjárfestingar og hámarkar með því ávinning samfélagsins af uppbyggingu sem á sér stað hérna.

Ég vil ítreka það sem ég benti á áðan að fyrirtæki geta líka augljóslega tekið lán í erlendum bönkum og greitt þá af lánunum til þeirra banka og dregið frá skattstofni þannig að ekki er komið í veg fyrir erlendar lántökur með því að huga að samskiptum milli móðurfélags og dótturfélaga.

En til að gera langa sögu stutta þá held ég að við hv. þingmaður séum sammála um mikilvægi þess að hámarka skatttekjur ríkissjóðs.