144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

rannsókn á endurreisn bankanna.

[15:28]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Nú hendir það oft hæstv. forsætisráðherra að vera misskilinn í hinni svokölluðu umræðu þannig að það er mjög mikilvægt að við séum alveg á sömu blaðsíðu hvað þetta mál varðar og vitum þá hvað við erum að tala um. Ég las niðurstöðu hv. þm. Brynjars Níelssonar þannig að honum fyndist tilefni til þess að fara yfir lagarammann, skoða hvort gera þyrfti breytingar þar, skýra hluti o.s.frv. Ég heyrði ekki betur, a.m.k. fyrr í umræðunni, en að hæstv. forsætisráðherra teldi að það þyrfti að rannsaka þetta mál eitthvað sérstaklega. Það er auðvitað allt annað mál að fara yfir lagaumhverfið og sjá hvort hægt sé að bæta það. Það er það sem við gerum hér frá degi til dags.

Er hæstv. forsætisráðherra að boða til einhverrar sérstakrar rannsóknar á þessu máli umfram það sem felst í því að fara yfir lagarammann?