144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

stjórnarstefnan.

[15:41]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Eins og jafnan þegar hv. þingmaður spyr mig spurninga fer mest af svartímanum í að leiðrétta fullyrðingar hv. þingmanns. Hann bar hagvöxt ársins 2014 saman við hagvöxt ársins 2013 og eignaði síðustu ríkisstjórn hagvöxtinn 2013. Ef menn skoða hins vegar það ár kemur glögglega í ljós að allt í einu eftir stöðnun tók hagvöxtur kipp eftir að ný ríkisstjórn tók við á árinu 2013 (Gripið fram í.) og áhrifin af nýrri ríkisstjórn þar augljós í töflum yfir hagvaxtarþróun. (Gripið fram í.) Svo heldur hv. þingmaður áfram að eigna mér einhverja stefnu um vexti og að ég stýri stýrivaxtastefnu Seðlabankans. Hv. þingmaður mætti glöggva sig á þeim lögum sem Seðlabankinn starfar eftir. Þar sæi hann að ég hef enga aðkomu að ákvörðunum bankans um stýrivexti.

Hvað varðar hins vegar stöðuna á vinnumarkaðnum og tækifærin til að auka kaupmátt enn — ég gleymdi að nefna það áðan, virðulegur forseti, að kaupmáttur á Íslandi hefur sjaldan, ef nokkurn tímann, aukist eins hratt og eftir að þessi ríkisstjórn tók við. Það eru svo sannarlega tækifæri til að halda áfram að auka (Forseti hringir.) þennan kaupmátt. (Gripið fram í.) Núna loksins eftir stöðnun, (Forseti hringir.) jafnvel hnignun síðasta kjörtímabils, geta (Forseti hringir.) launþegar vænst áframhaldandi kaupmáttaraukningar. (Gripið fram í: … hnignun?)