144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[15:52]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hér er lagt til að halda áfram gjaldtöku sem í dag er á stóriðjuna í landinu. Í staðinn vill hæstv. iðnaðarráðherra leggja á nýjan sérstakan þéttbýlisskatt sem fyrir vikið verður margfalt hærri á heimilin í landinu og venjuleg fyrirtæki. Þetta er annar nýi skatturinn sem þessi hæstv. ráðherra kynnir hér á vorþinginu. Ég hélt að skattkerfið væri nógu flókið fyrir þó að ríkisstjórnin kæmi ekki sýknt og heilagt inn með nýja skatta til að flækja skattkerfið í því skyni að ná inn jafn miklum tekjum og hér eru annars vegar.

Það er óskiljanlegt af hverju heimilin í landinu og fyrirtækin eiga að borga þann reikning sem stóriðjan hefur greitt hingað til.