144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

fjárhagsstaða Reykjanesbæjar.

[16:17]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Það sem mér finnst áhugavert í þessari umræðu er að ríkið á að hafa eftirlit með sveitarfélögunum og fjárhagsstöðu þeirra. Það er sér í lagi skiljanlegt ef við horfum til stjórnarskrárinnar því að samkvæmt 76. gr. hennar, sem er velferðarklausa, á að tryggja velferð. Sveitarfélögin fara með málefni sem varða menntun barna og velferð þeirra. Í stjórnarskránni segir, með leyfi forseta:

„Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.“

Ég man að einu sinni kynnti ég mér hvernig barnaverndaryfirvöld á hinum og þessum svæðum á landinu sinntu hlutverki sínu. Ákveðin lögbundin atriði áttu að vera til staðar þar en þeim var ekki sinnt vegna þess að ekki var nægt fé til þess. Ég ekki hvort það er hlutverk sveitarfélaganna eða ríkisins að sinna því, en það er klárlega þannig að ef sú staða kemur upp að hið opinbera á að sinna til dæmis velferð barna og ekki eru til peningar þá er það ekki gert.

Ég talaði við yfirmann Barnaverndarstofu á sínum tíma og athugaði það mál. Það þyrfti að fara mjög vel í saumana á því þegar grundvallaratriði sem talað er um í stjórnarskránni eru vanrækt vegna fjárhagserfiðleika í sveitarfélögum. En ætti þá ekki hæstv. innanríkisráðherra eða stjórnvöld að hafa eftirlit með því og grennslast fyrir um hvernig málin standa? Ég held að það sé mjög mikilvægt að ganga í það mál.