144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 153/2014 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

515. mál
[16:50]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var bara óhjákvæmilegt að spyrja hv. þingmann út í þessi sjónarmið hans vegna þess að flokkur hans hefur ekki viljað verða fullur þátttakandi í Evrópusamstarfinu, hluti af sambandinu sjálfu, aðili að Evrópska seðlabankanum og öllu því skipulagi, heldur hefur flokkurinn viljað hafa þennan samning um Evrópska efnahagssvæðið og okkur sem aðila að honum sem innleiðum þær tilskipanir sem hingað eru sendar með faxi hverju sinni. Nú segir þingmaðurinn að grundvallartilskipun á fjármálamarkaði, sú sem lýtur að innstæðutryggingum, sé ekki góð fyrir Ísland. Ég ætla ekkert að deila við þingmanninn um það. Segjum bara að hann hafi fullkomlega rétt fyrir sér um það efni. Hvað ætlar þingmaðurinn þá að gera? Ætlar hann að endursenda faxið til Brussel? Eða ætlar hann að segja lausu samstarfinu um Evrópska efnahagssvæðið? Eða hver er áætlun þingmannsins í málinu fyrst hann er þeirrar skoðunar að þessi stóra tilskipun um þennan mikilvæga lið á fjármálamarkaði sé ekki góð? Í því fyrirkomulagi sem hann styður, þar sem við erum aðilar að EES en höfum engin áhrif á hina upphaflegu ákvörðun, hvað ætlar hann þá að gera þegar hann fær vondar tilskipanir eins og hann virðist telja að hér séu á ferðinni? Ætlar hann að neita að innleiða þær og hvaða áhrif hefur það þá á samstarfið? Og var ekki efnahags- og viðskiptanefnd í morgun að neita að taka afstöðu til þess hvort einhver tilskipun frá Brussel væri góð eða vond af því að nefndin hefði ekki sjónarmið um það? Og hefði þingmaðurinn þá ekki í þessu ljósi átt að hafa sjónarmið á grundvelli 2. gr. á fundinum í morgun ef hann er þessarar skoðunar?