144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

upplýsinga- og sannleiksskylda ráðherra.

396. mál
[19:36]
Horfa

Flm. (Jón Þór Ólafsson) (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á síðari spurningunni. Að sjálfsögðu er það matskennt eins og með öll lög, en þetta er hófstillt tillaga. Það er talað um ásetning sem mun þá þurfa að sanna eða stórkostlegt hirðuleysi og það er lagalegt ákvæði sem er mjög erfitt líka að sanna þannig að tillagan er hófstillt.

Varðandi fyrri spurninguna þá er þessi umræða í gangi að ráðherrar séu ekki að segja satt og rétt frá og fólk þarf ekki annað en að hafa fylgst með fjölmiðlum síðastliðið ár til að sjá það, en þingmenn hafa sakað ráðherra um að gefa ekki réttar upplýsingar, leyna upplýsingum. Það þekkja allir landsmenn þá sögu og geta farið og skoðað hana. Það þarf ekki annað en skoða umræðuna í óundirbúnum fyrirspurnum með hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur 16. desember fyrir rúmu ári síðan, 2013, ef menn vilja finna dæmi um tilvik þar sem menn vildu meina að ráðherra væri ekki að segja satt og rétt frá. Að sjálfsögðu eru mýmörg dæmi. Þessi tillaga þýðir bara að það sem lögspekingar eins og t.d. Róbert R. Spanó hafa sagt um skýrleika refsiheimildar, eins og kemur fram í greinargerðinni, verður skýrara. Refsiheimildir verða að lýsa að lágmarki einhverjum hlutlægum viðmiðunum eða hafa að geyma áþreifanlega leiðbeiningu um inntak þeirra enda þótt þær séu orðaðar með matskenndum hætti. Þetta þarf að vera skýrt. Það er markmið þessa frumvarps, að þetta sé skýrt.