144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[15:22]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með frávísunartillögu um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, með síðari breytingum, þ.e. kerfisáætlun. Nefndarálitið er frá minni hluta atvinnuveganefndar, þeirri er hér stendur, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur.

Minni hlutinn telur að í frumvarpinu skorti að tekið sé tillit til umhverfissjónarmiða og að gætt sé að skipulagsvaldi sveitarfélaga í landinu. Kveðið er á um að sveitarstjórnum beri að samræma skipulagsáætlanir sínar við staðfesta tíu ára kerfisáætlun Landsnets og er því þrengt mjög að skipulagsvaldi sveitarfélaga. Kerfisáætlun er gert mjög hátt undir höfði og hún í raun sett ofar skipulagslögum. Flutningsfyrirtækinu er með frumvarpinu fengið mikið vald sem er afar sérstakt þar sem um einkahlutafélag er að ræða. Ekki er gert ráð fyrir að kerfisáætlun fái umræðu á Alþingi eins og til dæmis samgönguáætlun og áætlun um vernd og nýtingu landsvæða. Minni hlutinn telur brýnt að tryggja að sjónarmið almennings komist að áður en sveitarfélögum verður skylt að setja flutningsvirki á skipulag sitt. Þá má benda á að verði frumvarpið óbreytt að lögum kann það að koma sérstaklega illa við minni sveitarfélög sem hafa ekki eins mikla burði í skipulagsmálum.

Minni hlutinn óttast að umhverfissjónarmið verði fyrir borð borin ef aðeins Orkustofnun kemur að því að staðfesta kerfisáætlunina. Benda má á að með b-lið 1. gr. fellur brott vísun til þess að Orkustofnun geti bundið leyfi skilyrðum sem lúta til dæmis að umhverfisvernd. Minni hlutinn telur það ekki í samræmi við þriðju raforkutilskipun Evrópusambandsins að Orkustofnun hafi eftirlit með framkvæmd kerfisáætlunar enda er þar gerð krafa um sjálfstæðan og óháðan eftirlitsaðila. Minni hlutinn telur afar brýnt að kerfisáætlun lúti faglegu, ströngu og óháðu eftirliti.

Í a- og b-lið 2. gr. er mælt fyrir um samráðsferli annars vegar Landsnets og hins vegar Orkustofnunar. Minni hlutinn telur sex vikna frest of skamman fyrir svo viðamikið verkefni sem kerfisáætlun er. Þá telur minni hlutinn brýnt að Orkustofnun verði gert að hafa samráð við aðra en væntanlega viðskiptavini, svo sem sveitarfélög, ferðaþjónustuna og náttúruverndarsamtök.

Minni hlutinn tekur undir það álit skipulagsmálanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga að frumvarpið sé vanbúið, að sérstaklega skorti mun vandaðri skýringar með því og skýrari rökstuðning fyrir þeim tillögum sem þar koma fram um skerðingu á skipulagsvaldi sveitarfélaga. Einnig tekur minni hlutinn undir þá gagnrýni að lítið sem ekkert sé vikið að umhverfissjónarmiðum í frumvarpinu og að vegna mikilla annmarka á málinu komi til álita að kalla málið til baka og vinna það betur eða því gefinn sá tími sem þarf til þess að hægt verði að ná fram sem víðtækastri sátt um málið. Þá tekur minni hlutinn undir umsögn minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar sem er í fylgiskjali með áliti þessu. Minni hlutinn tekur enn fremur undir það meirihlutaálit umhverfis- og samgöngunefndar sem hér er einnig með sem fylgiskjal I.

Minni hlutinn leggur til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar sem skuli vinna úr því með ítarlegri hætti og leita eftir sem víðtækastri sátt um málið.

Undir þetta skrifar sú sem hér stendur, Lilja Rafney Magnúsdóttir.

Mig langar að drepa niður í umsögn umhverfis- og samgöngunefndar, fyrst meiri hlutans þar sem hann fjallar um kerfisáætlun og segir, með leyfi forseta:

„Umfjöllun nefndarinnar um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum afmarkaðist að mestu leyti við 2. gr. a, um kerfisáætlun og samráð við sveitarfélög, og 2. gr. c, um stöðu kerfisáætlunar flutningsfyrirtækisins gagnvart skipulagsáætlunum sveitarfélaga. Í þessum ákvæðum frumvarpsins eru stór álitamál sem snúa að sjálfstjórnarrétti og skipulagsskyldu sveitarfélaganna sem umsagnaraðilar hafa gert miklar athugasemdir við. Samráð við sveitarfélög sem eiga hagsmuna að gæta og aðra aðila er útfært í 6. mgr. 2. gr. a og á það sér stað við vinnslu kerfisáætlunar. Samkvæmt 2. gr. c frumvarpsins ber sveitarfélögum að samræma skipulagsáætlanir sínar við kerfisáætlun innan fjögurra ára frá samþykkt kerfisáætlunar, sveitarfélögum ber að tryggja að skipulagsmál hindri ekki framgang þeirra verkefna sem eru í staðfestri þriggja ára framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar og sveitarfélögum verður óheimilt að víkja frá tillögu flutningsfyrirtækisins ef það leiðir til þess að flutningsfyrirtækið nái ekki að uppfylla skyldur sínar samkvæmt kerfisáætlun. Af þessu má ráða að flutningsfyrirtækið er sett í yfirburðastöðu gagnvart sveitarfélögum og öðrum hagsmunaaðilum, t.d. jarðeigendum, og mun geta knúið sveitarfélög til að breyta sínum skipulagsáætlunum til samræmis við samþykkta kerfisáætlun innan tiltölulega skamms tíma.“

Annars staðar í umsögninni er komið inn á umsögn Skipulagsstofnunar og það álitaefni sem hún fjallaði um. Er þar vikið að álitamáli um ákvörðun Orkustofnunar um samþykkt kerfisáætlunar og hvort hún sé þá kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, úrskurðarnefndar raforkumála eða ráðherra. Í máli hv. framsögumanns kom fram að hann liti svo á að þetta væri kæranlegt til úrskurðarnefndar raforkumála. Gott og vel. Stjórnvaldsákvarðanir eru almennt kæranlegar til æðra stjórnvalds eða sérstakra kærunefnda en sérstök kæruheimild er ekki í frumvarpinu. Það kemur hér fram svo eitthvað er þetta óljóst að mati Skipulagsstofnunar. Tel ég rétt að fá þá á hreint hvað er rétt í þessu máli. Í þessu ljósi þarf einnig að athuga að samkvæmt 1. gr. frumvarpsins mun ekki þurfa leyfi Orkustofnunar fyrir nýju flutningsvirki ef gert er ráð fyrir slíkri framkvæmd í framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar.

Mig langar líka að drepa niður í umsögn minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar um frumvarp þetta sem við í atvinnuveganefnd fengum. Þar kemur fram að minni hlutinn telur skorta mjög á að horft sé til umhverfissjónarmiða í frumvarpinu. Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. a frumvarpsins skuli kerfisáætlun til tíu ára byggja á raunhæfum sviðsmyndum um þróun raforkuframleiðslu, raforkunotkunar, markaðsþróunar og raforkuflutnings til annarra landa eftir því sem við á og að í kerfisáætlun skuli gera grein fyrir forsendum, sviðsmyndum og spám sem stuðst er við. Í þessu sambandi telur minni hlutinn þær skýringar sem fram koma í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð engan veginn geta staðist en þar kemur fram að við mótun tíu ára kerfisáætlunar skuli horfa til virkjunarkosta í nýtingar- og biðflokki rammaáætlunar. Ljóst sé að þótt virkjunarkostur raðist í nýtingarflokk rammaáætlunar feli það eitt og sér ekki í sér þá ákvörðun að virkja skuli enda eigi þá eftir að gera könnun á umhverfisáhrifum framkvæmdar, gefa út framkvæmdaleyfi o.fl. Þá telur minni hlutinn fráleitt að horfa til virkjunarkosta í biðflokki rammaáætlunar sem eru þá enn fjarlægari virkjunarkostir. Af þessum sökum geti ekki talist rökrétt að byggja á þessum atriðum í raunhæfri áætlun. Minni hlutinn tekur undir með meiri hlutanum í þeirri umsögn sem ég vitnaði til áðan um að frumvarpið þarfnist verulegra breytinga með hliðsjón af þessum atriðum og telur jafnframt að áhersla á umhverfissjónarmið þurfi að vera fyrir hendi sé litið til þess hversu mikil umhverfisáhrif línulagnir geta haft. Á þetta skorti verulega í frumvarpinu eins og umsagnaraðilar hafi bent á.

Þetta mál er vissulega umdeilt og hafa víða komið sterkar skoðanir fyrir atvinnuveganefnd þegar hún hefur fjallað um þessi mál. Mjög gagnrýnar umsagnir hafa borist og ég tel rétt að vekja athygli Alþingis og þjóðarinnar á að þetta er snúnara en kannski virðist við fyrstu sýn og í framsögu meiri hluta atvinnuveganefndar um málið. Í minnisblaði sem atvinnuveganefnd fékk frá Landvernd gerir hún grein fyrir að hún meti það svo að þessar tillögur séu ekki tímabærar á meðan innleiðing á öðrum orkupakka ESB er til rannsóknar hjá ESA og telur áhöld um að samræma breytingar við skipulagslög og mat á umhverfisáhrifum samkvæmt umsögn Skipulagsstofnunar. Landvernd telur líka rétt að bíða eftir landsskipulagsstefnu og segir þessi mál vissulega skarast. Við eigum von á að það fari að styttast í að landsskipulagsstefna liggi fyrir. Landvernd bendir á að Landsneti sé gert kleift að nota virkjunarhugmyndir í nýtingar- og biðflokki rammaáætlunar sem forsendur fyrir áætlanagerð um framkvæmdir í flutningskerfi raforku til tíu ára og að þörfin á lagningu stórra lína sé keyrð upp, þ.e. 220 kílóvött, á forsendum sem standast ekki og bendir á að þó að einhverjir kostir séu í nýtingarflokki rammaáætlunar sé ekki þar með sagt að það verði virkjað yfir höfuð, hvað þá í biðflokknum eins og kom fram í umsögn umhverfis- og samgöngunefndar.

Landvernd telur líka allar leyfisveitingar einfaldaðar úr hófi fram, Landsnetið fái allt of mikil völd og Orkustofnun þurfi einungis að samþykkja kerfisáætlun í heild sinni en ekki einstakar framkvæmdir. Landvernd telur það líka óljóst um kæruleiðir að umhverfismálin séu útvötnuð í frumvarpinu og það sé gengið þvert á 1. gr. raforkulaga um leyfisveitingar og skilyrði er lúta að umhverfisvernd. Allt þetta ætti að vera til umhugsunar fyrir meiri hluta atvinnuveganefndar til að vinna málið betur. Eins og ég skil þetta ætti ekki að liggja alveg lífið á í þessum málum heldur sé mikilvægt að standa vel að verki.

Landvernd telur frumvarpið líka rekast á við aðra löggjöf um skipulagsmál. Það er mjög gagnrýnt að eftirlitið sé áfram í höndum Orkustofnunar sem fengi enn aukna ábyrgð og sagt að það gangi í raun þvert á væntanlega löggjöf sem þarf samkvæmt þriðja orkupakkanum hjá ESB, raforkutilskipun frá ESB, sem okkur er uppálagt að taka upp innan tíðar, en samkvæmt henni skal eftirlit vera í höndum aðila sem hvorki er háður né heyrir undir opinbera eða einkaaðila. Hann þarf að vera sjálfstæður og óháður gagnvart þeim. Það hlýtur að orka tvímælis að Orkustofnun sé talin sá hlutlausi og sjálfstæði aðili í dag að þeir starfsmenn raforkueftirlits heyri beint undir orkumálastjóra og stofnunin heyri undir ráðherra. Sömu starfsmenn sinna einnig öðrum störfum en eftirliti með þessum þriðja orkupakka sem er nú í meðferð stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og búist er við að tekinn verði upp í EES-samninginn og við verðum skuldbindandi aðili að í framhaldinu.

Ýmislegt af hálfu Skipulagsstofnunar hefur verið gagnrýnt sem mér finnst líka mjög mikilvægt að nefndin fjalli aftur um og fari ofan í saumana á. Skipulagsstofnun bendir í umsögn sinni um umhverfismat kerfisáætlunar á að lög nr. 105/2006, um umhverfismat áætlana, gildi meðal annars um umhverfismat framkvæmdaáætlana og breytingar á þeim, samanber 1. mgr. 3. gr. laganna. Kerfisáætlun fellur undir gildissvið laganna og í frumvarpinu er ekki vikið að umhverfismati kerfisáætlunar. Skipulagsstofnun bendir á að umhverfismat áætlunar þarf að uppfylla tiltekin skilyrði varðandi gögn, ferli og afgreiðslu sem eðlilegt er að byggt sé inn í ákvæði breyttra raforkulaga eða að lágmarki vísað til þeirra laga á viðeigandi stöðum. Ella gæti skapast óvissa og spurningar um samspil ákvæða raforkulaga og laga um umhverfismat áætlana hvað varðar kerfisáætlun. Í þessu sambandi er bent á að samkvæmt lögum um umhverfismat áætlana þarf umhverfismat að fara fram samhliða mótun áætlunarinnar og áður en áætlunin er endanlega afgreidd. Í tilfelli kerfisáætlunar þarf því umhverfismatið að hafa farið fram áður en Orkustofnun samþykkir eða staðfestir áætlunina.

Það hlýtur að vera eðlilegt að menn taki tillit til þessara veigamiklu ábendinga frá Skipulagsstofnun.

Enn fremur bendir Skipulagsstofnun í sinni umsögn á málsmeðferð tillögu að kerfisáætlun og segir, með leyfi forseta:

„Í 6. mgr. 9. gr. a er gerð grein fyrir málsmeðferð tillögu að kerfisáætlun gagnvart hagsmunaaðilum. Þar eru sett fram nokkuð ítarleg ákvæði um kynningu og samráð gagnvart sveitarfélögum. Um kynningu og samráð gagnvart öðrum aðilum segir eingöngu að flutningsfyrirtækið skuli hafa samráð við alla aðra hagsmunaaðila og nánar verði kveðið á um það í reglugerð.

Skipulagsstofnun telur að um svo þýðingarmikla áætlanagerð um grunninnviði sem varðar hagsmuni margra sé tilefni til að kveða skýrar á um málsmeðferð í lögum. Telur stofnunin þá einnig rétt að hafa í huga að í tilviki kerfisáætlunar er um að ræða áætlanagerð sem fer fram hjá hlutafélagi en ekki ráðuneyti eða stofnun. Það gefur jafnvel frekara tilefni til að kröfur um kynningu og samráð séu settar fram með skýrum hætti í lögum. Til samanburðar má benda á ítarleg ákvæði um kynningu og samráð í skipulagslögum og lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun.“

Allt er þetta þess virði að fara yfir aftur. Ég sem stend að minnihlutaáliti atvinnuveganefndar tel rétt að málinu verði vísað til ráðherra og unnið betur.

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur vissulega komið að undirbúningi þessa máls en telur sig ekki koma að því með þeim hætti að um það ríki einhver sátt. Sambandið gerði í umsögn sinni mjög margar athugasemdir og gagnrýnir að komið sé inn á skipulag sveitarfélaga sem oftar en ekki hefur verið talað um í þessum ræðustól að sé heilagt, a.m.k. þegar ákveðinn flugvöllur er nefndur á nafn. Það hlýtur því að vigta inn í þá umræðu að Samband íslenskra sveitarfélaga er ekki í sátt við málið eins og það birtist hér og ekki þær sáralitlu breytingar sem koma fram í nefndaráliti meiri hlutans. Fulltrúi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga hefur fengið erindi frá Guðjóni Bragasyni þar sem óskað er eftir að málið verði tekið aftur til umfjöllunar og reynt að ná einhverri sátt í málinu, að það sé skipuð sáttanefnd til að setja þetta mál í farveg og koma fram með beinar tillögur í þeim efnum. Mér finnst mjög óeðlilegt annað en að við tökum þær til umfjöllunar í nefndinni milli 2. og 3. umr. og mun óska eftir að við gerum það.

Sambandið hefur líka komið með ýmsar veigamiklar athugasemdir sem ég ætla að koma aðeins inn á. Það segir:

„Skipulagsmálanefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem er ráðgefandi fyrir stjórn og starfsmenn sambandsins, tók málið til umfjöllunar 5. desember sl.

Að áliti nefndarinnar er frumvarpið vanbúið og sérstaklega skortir mun vandaðri skýringar með því og skýrari rökstuðning fyrir þeim tillögum sem þar koma fram um skerðingu á skipulagsvaldi sveitarfélaga. Gagnrýnivert er að lítið sem ekkert er vikið að umhverfissjónarmiðum í frumvarpinu.“

Ég held að það standi ansi mikið upp úr.

„Með tilliti til þeirra miklu annmarka sem eru á málinu telur nefndin koma til álita að Alþingi kalli eftir því að frumvarpið verði unnið betur og síðan lagt fram að nýju.“

Það er akkúrat það sem ég lagði til í nefndaráliti mínu.

„Ef ekki þykir tilefni til þess verði í öllu falli vandað mjög til umfjöllunar um málið á Alþingi og því gefinn sá tími sem þarf til að hægt verði að ná sem víðtækastri sátt um málið.“

Ég tel mjög mikilvægt fyrir okkur öll að reyna að mæta þeim sjónarmiðum en fara ekki með þetta mál í gegn í ágreiningi.

Einnig segir í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga:

„Í umfjöllun nefndarinnar var lögð mest áhersla á að ræða 9. gr. c, sem fjallar um áhrif kerfisáætlunar Landsnets á skipulagsáætlanir sveitarfélaga. Nefndin leggur áherslu á að frumvarpinu verði breytt á þann veg að í 9. gr. a, sem fjallar um samráð við gerð kerfisáætlunar, verði gert ráð fyrir því að þegar ljóst þykir að ágreiningur er milli flutningsfyrirtækisins og sveitarstjórna um útfærslu línuleiðar skuli málið sett í formlega sáttanefnd.“

Þetta með að reyna að ná samkomulagi um að skipa einhverja slíka sáttanefnd stendur svolítið upp úr og ég held að það hljóti að verða málinu til góðs.

„Of seint sé að gera ráð fyrir slíku ferli eftir að kerfisáætlun hefur verið samþykkt. Til samræmis við þessa áherslu leggur nefndin til að 9. gr. c verði einfölduð verulega.

Þau sjónarmið sem fram komu í umfjöllun nefndarinnar hafa verið höfð til hliðsjónar við frágang umsagnarinnar.“

Ég ætla í lok máls míns að koma aðeins inn á lok umsagnarinnar hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um málskotsleiðir:

„Sambandið tekur undir ábendingar sem fram koma í umsögn Skipulagsstofnunar um nauðsyn þess að skýra nánar hvers eðlis samþykki eða staðfesting Orkustofnunar á kerfisáætlun er og þá jafnframt að skýrt verði nánar hvort og þá hvert verði mögulegt að skjóta ágreiningi um þá ákvörðun.“

Það virðist vera gegnumgangandi að þeir aðilar sem hafa verið nefndir hér og gagnrýnt frumvarpið séu sammála um að þeim finnist óljóst hvert á að skjóta ágreiningi um ákvörðun og staðfestingu Orkustofnunar á kerfisáætlun. Ég held að það hljóti að þurfa að skýra nánar.

Það hefur líka komið mikil gagnrýni á þetta mál frá landeigendum. Ég held að það sé mjög veigamikið að taka tillit til þeirrar gagnrýni.

Umhverfisstofnun hefur líka lagt fram umsögn og segir hér, með leyfi forseta:

„Samkvæmt 2. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um reglugerðarheimild sem verður í 9. gr. d laganna, sem nær einnig til eftirfylgni úrræða, m.a. til hvaða úrræða eftirlitsaðili hefur til þess að kerfisáætlun sé fylgt eftir. Umhverfisstofnun telur að það þurfi að mæla skýrar á um þessi úrræði eftirlitsaðila í lögum, a.m.k. sé settur ákveðinn rammi um þau.“

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur er með gagnrýni sem snýr að þáttum sem ekki hafa komið fram í mínu máli. Hún varðar vatnsverndarsvæði og er þar tekið sem dæmi ef flutningsfyrirtæki þyrfti að fara með línu yfir vatnsverndarsvæði til að geta uppfyllt skyldur sínar. Það er vísað til samþykktar um vatnsvernd á höfuðborgarsvæðinu. Ýmislegt svona hlýtur að vera til mikillar umhugsunar um hvert við erum að fara með þessi mál, hvaða svæði við viljum vernda og að kerfisáætlunin gangi ekki lengra en skipulagsvald sveitarfélaga. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur telur ekki ásættanlegt að flutningsfyrirtæki raforku taki fram fyrir hendurnar á sveitarfélögum og heilbrigðisnefndum.

Ég minntist áðan á að landeigendur leggja áherslu á sjálfstæði eftirlits og fyrirtækjaaðskilnað samkvæmt þriðju tilskipun EES um raforkutilskipunina sem ég kom inn á áðan. Þarna tel ég komið svo mikið af málefnalegri gagnrýni á þetta mál að það hljóti að vera fullt tilefni til að við vísum því frá og vísum því til ráðherra að vinna það betur í samræmi við þær umsagnir sem nefndinni hafa borist og veigamikla gagnrýni hjá umhverfis- og samgöngunefnd sem kemur fram í báðum umsögnum. Þó að menn hafi lagt fram umsagnir sem minni hluti og meiri hluti getur minni hlutinn tekið undir gagnrýni meiri hlutans og ég tel fullt tilefni til að vísa málinu frá (Forseti hringir.) og vinna það miklu betur.