144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[16:36]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er alveg sammála því. Það er mjög ónotalegt að sjá umsagnir frá bæði Skipulagsstofnun og sveitarfélögunum þar sem bent er á þá lagalegu eða stjórnsýslulegu óvissu sem er uppi um það hvaða stöðu samþykkt eða afgreiðsla Orkustofnunar á kerfisáætlun hefur. Ég held að eitt af því sem þurfi að fara mikið betur yfir sé hlutverk Orkustofnunar í þessu, hvað hún eigi að hafa með höndum því það er engin smábreyting að leyfisveitingar fyrir einstökum framkvæmdum hverfi og renni inn í kerfisáætlun. Þegar kerfisáætlun er einu sinni samþykkt þá er bara bein braut fyrir allt sem í henni er, þarf ekkert að fá leyfi fyrir einstökum framkvæmdaþáttum eða öðru slíku. Það gengur náttúrlega ekki að óvissa sé um hvaða stöðu sú afgreiðsla Orkustofnunar hefur, hvort það sé stjórnvaldsákvörðun sem er kæranleg og þá hvernig. Þetta er sérstaklega mikilvægt vegna þess að hér er ekki gert ráð fyrir óháðum aðila, hvorki úrskurðaraðila í raun og veru um ágreiningsmál né eftirlitsaðila. Ég gaf mér það strax á árinu 2012 þegar jarðstrengjanefndin var að ljúka störfum að það sem næst yrði skoðað í framhaldinu væru stjórnsýsluþættir málsins. Þar þyrfti að koma til skoðunar hvort ætti ekki að fella inn í ferlið einhvers konar úrskurðarfarveg, ágreiningsfarveg, gerðardóm eða eitthvað því um líkt. Það er mjög erfitt að skilja ákvarðanirnar eftir hjá hagsmunaaðilanum, flutningsfyrirtækinu og/eða Orkustofnun sem er svo öllu megin við borðið í þessum málum.

Þannig að ég held að utanaðkomandi (Forseti hringir.) aðili eða Alþingi sjálft með því að einfaldlega staðfesta kerfisáætlun þurfi að koma til sögunnar.