144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[18:53]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að spyrja hv. þingmann hvort ekki væri skynsamlegast að láta staðar numið í þessari umræðu og nefndin tæki málið til sín áður en 2. umr. lyki þannig að við fengjum málið síðan aftur eftir umfjöllun nefndarinnar og eftir atvikum að einhverju leyti í samstarfi við umhverfis- og samgöngunefnd. Ef maður les meginniðurstöður bæði meiri hluta og minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar er alveg ljóst að það er ekki verið að tala um smávægilegar breytingar á frumvarpinu heldur að það þurfi verulegrar vinnu við.

Ég er á svipuðum slóðum líka varðandi skipulagið eða utanumhaldið um þetta og hallast æ meira að því að það væri liður í lausn þessa máls, það mundi ekki eitt og sér duga en það væri þó veruleg breyting, ef lokahnykkurinn á staðfestingu kerfisáætlunar væri á Alþingi eins og þær mörgu áætlanir aðrar sem við höfum nefnt til sögunnar. Það mundi að mínu mati líka hafa gildi vegna þess að ég tel mikinn mun á því að skipulagsvaldi sveitarfélaganna séu settar skorður af niðurstöðu sem endar á ábyrgð Alþingis og þar sem lýðræðislega kjörið Alþingi staðfestir þá að það séu réttlætanlegar takmarkanir á valdi sveitarfélaganna í staðinn fyrir að það sé áætlun framkvæmdaaðilans, hagsmunaaðilans, stimpluð af Orkustofnun. Allir sjá að í lýðræðislegu samhengi er munur þar á.

Í öðru lagi mundi þetta þjóna þeim tilgangi að allir aðilar gætu aftur komið sjónarmiðum sínum á framfæri, Alþingi gæti metið hvort í hinu svokallaða samráði hefði verið tekið sanngjarnt og fullnægjandi tillit til sjónarmiða sem þar hefðu verið sett fram, það hefðu allir kost á að koma aftur sínum sjónarmiðum að.

Í þriðja og síðasta lagi spyr ég hv. þingmann: Er ekki sú (Forseti hringir.) hætta á ferðum að deilurnar verði, ef þetta verður gert svona, einfaldlega fluttar til, að (Forseti hringir.) þær færist bara inn á nýjan vígvöll þar sem verða átökin um undirbúning kerfisáætlunar og eftir atvikum síðan kærur (Forseti hringir.) og dómsmál um hana?