144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[23:16]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég vildi byrja á því að spyrja þingmanninn út í áhyggjur hennar af sjálfsstjórnarrétti sveitarfélaga sem er stjórnarskrárvarinn, hvort hún telji ástæðu til að hafa áhyggjur af því að það skapi réttaróvissu, hvort hér sé gengið of nærri ákvæðum stjórnarskrárinnar um sjálfsforræði sveitarfélaganna þannig að það gæti komið til að dómstólar þyrftu að hlutast þar til um, hvort það mundi skapa óvissu um lagasetninguna í þessari útfærslu.

Síðan finnst mér málið hugmyndafræðilega athyglisvert, því að hér fara þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins fyrir tillögum sem byggja í raun og veru á sýninni um miðstýrðan áætlunarbúskap á forræði ríkisins, að við hverfum í þeim efnum frá frjálsum samningum frjálsra einstaklinga og lögaðila þar sem lögð er áhersla á réttindi einstaklinga og frjálsa viðskiptasamninga manna. Ég held að það sé nokkuð misráðið, einkanlega vegna þess að hér takast iðulega á hagsmunir um hvort það eigi að leggja línu með ódýrasta hætti í lofti eða hvort það eigi að kosta upp á að leggja hana í jörð. Þá sé óheppilegt fyrir heildarhagsmuni samfélagsins að það séu aðeins hagsmunir línuleggjandans, í þessu tilfelli Landsnets, sem þar eigi að ráða tillögum en það eigi ekki að taka tillit til þess mikla kostnaðar sem getur verið fyrir sveitarfélög, að línur takmarka skipulagsmöguleika, og fyrir landeigendur í því að land þeirra verður verðminna og möguleikar á því að nýta eignarréttindi sín, sem sami Sjálfstæðisflokkur á síðustu öld (Forseti hringir.) a.m.k. talað fyrir, (Forseti hringir.) geti minnkað verulega.