144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[16:51]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í tilefni af athugasemdum hv. þingmanns um það fyrirkomulag sem mælt er fyrir um í 3. gr. og 5. gr., þá er rétt að gengið er út frá því í frumvarpinu að það sé eftir nokkurt samráð sem skilyrðin eru útfærð. Töluvert er fjallað um það í greinargerð um 3. gr. og rétt að benda á að fundir fjármálastöðugleikaráðs eru undirbúnir af kerfisáætlunarnefndinni en þar er seðlabankastjóri formaður, aðstoðarseðlabankastjóri situr þar, forstjóri og varaforstjóri Fjármálaeftirlitsins og einn sérfræðingur sem ráðherra skipar.

Þetta fyrirkomulag ásamt því sem við höfum verið að útfæra annars staðar, eins og t.d. í lögum um opinber fjármál, er allt hugsað til þess að fleiri hafi yfirsýn um þessi mál. Það gildir í raun og veru það sama um 5. gr., að ráðherra eigi samráð við Seðlabankann, fái umsögn hans þegar greiðslumat er bundið sérstökum skilyrðum þannig að full yfirsýn sé höfð til hliðsjónar þegar reglur um þessi efni eru settar. Það er að sjálfsögðu megintilgangur málsins að draga mjög úr heimildum til að veita erlend lán og á hinn bóginn að afnema fortakslaust bann við gengistryggðum lánum en takmarka þau líka mjög. Varðandi það samtal sem getur átt sér stað milli lántaka og fjármálastofnunar er það að sjálfsögðu ávallt svo að (Forseti hringir.) fjármálastofnunin getur sett sér mun strangari reglur en hér er um að ræða og einfaldlega lagt þá línu að erlend lán verði ekki veitt öðrum en þeim sem hafa erlendar tekjur. (Forseti hringir.) En hérna er í raun bara verið að setja hin ytri mörk fyrir fjármálakerfið.