144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[16:57]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek eindregið undir með hv. þingmanni að það er miklu eðlilegra að festa þessar heimildir í lög. Það tíðkaðist hér til forna að fela Seðlabankanum í raun löggjafarvald með reglusetningu sinni en það er ekki í neinu samræmi við þær kröfur sem menn gera til lagasetningar nú á dögum.

Ég vildi spyrja þingmanninn hvort ekki megi ráða af þeim dómum sem við höfum fengið frá EFTA og af umsögnum frá Evrópusambandinu varðandi verðtrygginguna sjálfa að heimaríkin, þó að óheimilt kunni að vera að banna með öllu tilteknar verðtryggingar, hafi býsna mikið að segja um útfærslu einstakra verðtrygginga, hvort sem það eru gengistryggingar eða vísitölutryggingar við neyslu eða aðra vísitölu. Má ekki ráða það af þeim álitum sem við höfum fengið í tengslum við álitaefni í kringum verðtrygginguna?

Síðan vil ég spyrja hv. þingmann um annað, en hann var hér á þingi 2001 þegar menn bönnuðu þessi ákvæði, þ.e. gengistryggðu lánin. Þá var það gert með vísan til þess að stýrivextir Seðlabankans yrðu að bíta, við værum með lítinn gjaldmiðil og nauðsynlegt væri að stýrivaxtaákvarðanir hefðu áhrif á lánasafnið og þess vegna væri nauðsynlegt að banna þetta lánaform, það gengistryggði í raun og veru íslensk lán. Ef niðurstaða fjármálaráðherra er sú að ekki sé mögulegt að banna gengistryggingar, getur það ekki skapað ákveðna erfiðleika til lengri tíma fyrir stöðu Íslands að landinu sé óheimilt að banna gengistryggingar af evrópska kerfinu en við reynum á sama tíma að halda úti hérlendum (Forseti hringir.) gjaldmiðli og í raun og veru verja hann fyrir þeim erlendu áhrifum sem samt verður að gangast undir?