144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[13:40]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er spurning hvort forseti á ekki að nýta vald sitt og hliðra til þegar mikið liggur við í þingsköpum og leyfa lengri ræðutíma í andsvörum við hv. þm. Jón Gunnarsson, úr því að svona svigrúm er til staðar innan þingskapanna almennt.

Því miður var hv. þingmaður við sama heygarðshornið og hann notaði hluta ræðutíma síns til þess að halda áfram að hrauna yfir umhverfis- og samgöngunefnd og gera lítið úr vinnubrögðum hennar um leið og hann hældi sjálfum sér og hrósaði sérstaklega fyrir vönduð vinnubrögð. Það er athyglisvert sjálfsmat hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni, sem aftur og aftur hefur hleypt hér öllu í uppnám með fautaskap sínum í vinnubrögðum, að hann telur sig enn vera í stöðu til þess að gagnrýna aðra og hæla sjálfum sér.

Þó vottaði nú fyrir því, það kom hér merkileg yfirlýsing frá hv. þingmanni, að það væri samt ýmislegt í álitum umhverfis- og samgöngunefndar sem gæti verið ástæða til að skoða. Það er breyting frá því að ekkert var gert með þær umsagnir og ekki einu sinni beðið eftir þeim. Þá er auðvitað spurningin: Ef hv. þingmaður er sjálfum sér samkvæmur og þarna eru stór og veigamikil mál eins og kæruleiðir o.fl., er þá ekki einboðið (Forseti hringir.) að kalla málið þegar í stað aftur inn í nefndina og fara að vinna úr þessum hlutum?